Minnsti hreindýrakvóti í tuttugu ár

Heimilt er að veiða 800 hreindýr á veiðitímabilinu í ár sem hófst á mánudag. Tuttugu ár eru síðan kvótinn var jafn lítill. Umsóknir um leyfi hafa þrefaldast á sama tíma.

„Það er lítið byrjað en þó búið að veiða 15 tarfa fyrstu þrjá dagana,“ segir Jóhann G. Gunnarsson, sérfræðingur í hreindýraveiðum hjá Umhverfisstofnun.

Heimilt er að veiða tarfa frá 15. júlí til 15. september en kýr frá 1. ágúst til 20. september. Að þessu sinni er heimilt að veiða 800 dýr, 403 tarfa og 397 kýr. Þar af eru 24 veiðileyfi fyrir kýr skilyrt við syðstu veiðisvæðin í nóvember.

Fara þarf aftur til ársins 2004 til að finna jafn lítinn kvóta. Munurinn er hins vegar sá að þá voru umsóknir 1158. Í ár voru þær tæplega 3.200. Í tölum frá Umhverfisstofnun má rekja hvernig eftirspurn óx hratt á góðærisárunum til 2008, dróst snöggt saman fyrst eftir hrun en óx síðan aftur og hefur verið margföld miðað við kvóta síðan.

Kvótinn varð stærstur um 1450 dýr árin 2018 og 19 en hefur fækkað jafnt og þétt síðan. Á svæði tvö, Fljótsdalsheiði og nágrenni, sem löngum var helsta veiðisvæðið, er aðeins leyft að veiða 30 dýr annað árið í röð. Jóhann segir að lítið hafi sést af dýrum á heiðinni. Almennt hefur kvótinn farið minnkandi þar sem stofninn virðist minni en talið var.

Jóhann segir áhrif minni kvóta á hegðun veiðimanna væntanlega þær að veiðarnar verði jafnari yfir ári og „minni biðraðastemming“ en einkum við lok veiðitímans hefur verið álag á veiðunum.

Um ástand tarfanna segir hann viðbúið að þeir séu fitulitlir, eins og vanalega á þessum árstíma en kalt vor hjálpi ekki. Þó hafi verið felldir tarfar nú þegar upp á 95 kíló, sem sé gott í byrjun tímabilsins.

Þrír leiðsögumenn eru með veiðimenn í dag, allir á svæði 1 sem er norðan Jökulsár á Dal. Þar er heimilt að veiða flest dýr í ár, 185 talsins. Jóhann segir meiri snjó víða til fjalla á Austfjörðum en oft áður. „Það er talsverður snjór í fjallgarðinum milli Héraðs og Borgarfjarðar sem og á svæði 1, kringum Sandfell og norður í Hágöngur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar