Mokveiði á síldarmiðunum

Síldarvertíðin hefur gengið afar vel til þessa og skipin stoppa stutt á miðunum. Landað var úr Beiti NK í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar í Neskaupstað um helgina og aðfaranótt mánudags kom Börkur NK með 1.050 tonn sem fengust í tveimur holum.

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir að verið sé að landa úr Berki og mun vinnslu úr afla hans ljúka í kvöld. Nú fyrir hádegi kom Margrét EA til Neskaupstaðar með 1.100 tonn og mun vinnsla á afla hennar hefjast strax og lokið verður við að vinna úr Berki.

„Þessi vertíð hefur einkennst af hörkuveiði. Það er ekki hægt að biðja um það betra. Við fengum þessi 1.100 tonn í tveimur holum í Seyðisfjarðardýpinu,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Margréti í samtali við vefsíðuna.

„Síldin sem nú veiðist er heldur smærri en sú síld sem veiddist fyrr á vertíðinni. Hún er að meðaltali 360-370 grömm, en hún hentar vel til vinnslunnar. Nú fer að síga á seinni hluta vertíðarinnar hjá okkur. Við eigum einungis eftir að veiða rúm 2.000 tonn af kvótanum okkar,“ segir Guðmundur.

Mynd: SVN

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.