Mótmæli í Berufirði: Bíðum eftir næstu skrefum stjórnvalda

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps lauk fundi sínum í gær á brúnni yfir Berufjarðará með samþykkt ályktunar þar sem frestun vegabóta í firðinum er mótmælt. Á sjötta tug bifreiða var stopp við brúna á meðan mótmælum stóð þar í gær.


„Nú bíðum við og sjáum hver viðbrögð stjórnvalda verða og ákveðum næstu skref í framhaldinu,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri.

Sveitarstjórnin frestaði fundi sínum úti á Djúpavogi í gær og flutti sig inn á brúna þar sem komið var fyrir stólum og borðum. Í ályktuninni er skorað á samgönguráðherra og Alþingi að standa við samgönguáætlun frá í haust um nýr vegur verði lagður í botni Berufjarðar í ár.

Þar segir að yfirlýsingar ráðherrans um að mótmæli íbúa skipti engu hafi þveröfug áhrif á samfélagið allt á Austurlandi. Samgönguyfirvöldum og ráðherra sé löngu kunnugt um ástand Hringvegarins í botni Berufjarðar og því eigi hörð mótmæli ekki að koma ráðherranum á óvart.

Sveitarstjórnin krefst þess að ráðherra og Alþingi sameinist um að koma framkvæmd við nýjan veg um botn Berufjarðar í útboð nú þegar.

Galið að þessum endurbótum sé frestað

Fyrir botni Berufjarðar er 8 km malarkafli, annar tveggja sem eftir eru á Hringveginum og einbreið brú yfir Berufjarðará. Deilt hefur verið um legu nýs vegar síðustu ár en lausn náðist í fyrra og virtist því ekkert standa í vegi fyrir að framkvæmdin yrði boðin út í byrjun þessa árs.

Fjárveitingar á fjárlögum dugðu hins vegar engan vegin til ætlaðra framkvæmda í samgönguáætlun og tók ráðherra að sér að ákveða forgangsröðun. Berufjarðarbotninn var sem fyrr segir ein þeirra framkvæmda sem sett var í bið.

„Íbúar Djúpavogshrepps eru fyrst og síðast furðu lostnir. Menn þóttust vera komnir í þá stöðu að þetta væri fyrir vind og væri að fara að gerast, kannski sérstaklega í ljósi þeirra tekna sem ferðaþjónustan skaffar okkur.“

Umferð um veginn hefur aukist verulega síðustu ár og enginn önnur leið er í boði fyrir þá sem ætla um Austurland.

„Þetta er ekkert einkamál Djúpavogsbúa. Hringvegurinn er fjölfarnasti vegur landsins og því er spáð að ferðamönnum fjölgi um 30% frá í fyrra þegar mörgum þótti nóg um með vegakerfið. Stór hluti þessar ferðamanna keyra hringinn og með fullri virðingu fyrir öðrum framkvæmdum þá er algjörlega galið að þessum endurbótum sé frestað.“

Sýna skilning eftir útskýringar

Gauti segir vonir Djúpavogsbúa og nærsveitunga standa til að mótmælin skili árangri en ekkert hefur verið rætt beint við Jón Gunnarsson, samgönguráðherra.

Mótmælendur lokuðu veginum frá klukkan fimm til sjö í gær. Undir lokin var á sjötta tug bíla stopp við brúna og má ætla að um 100 manns hafi verið á staðnum. Flestir virtust rólegir en ferðamenn sem sögðust eiga bókað í flug frá Keflavík um kvöldið létu óánægju sína í ljósi, meðal annars með að liggja á flautunni.

„Bæði innlendir og erlendir vegfarendur hafa tekið þessu vel. Einhverjir urðu pirraðir í gær en flestir hafa skilning á þessu þegar búið er að skýra málstaðinn út fyrir þeim og reyndu að gera það besta úr þessu.“

Frá hreppsnefndarfundinum á brúnni í gær. Mynd: Ólafur Björnsson

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.