Munu framvegis senda út tilkynningar tvisvar í viku
Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands hefur ákveðið að hætta að senda út daglegar tilkynningar um aðgerðir og ástand á svæðinu vegna heimsfaraldurs Covid-19 því langt er frá síðasta smiti. Framvegis verða sendar út tilkynningar tvisvar í viku.Þetta kemur fram í yfirlýsingu aðgerðastjórnar í dag. Hún hefur sent frá sér daglegar tilkynningar frá 26. mars.
Ekki hefur greinst smit á svæðinu frá 9. apríl, enginn er í einangrun með virkt smit og aðeins tveir í sóttkví. Í því ljósi telur aðgerðastjórnin ekki þörf á daglegum tilkynningum.
Í staðinn verða sendar út tilkynningar tvisvar í viku, á þriðjudögum og fimmtudögum. Tilkynningarnar verði teknar upp aftur ef smit greinist á svæðinu, en vonast er til þess að íbúar vinni að því saman að til þess komi ekki.