Nafnakosning samhliða forsetakosningum

Undirbúningsstjórn sameiningar fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi hefur samþykkt að kosið verði milli 6 nafna á nýtt sveitarfélag samhliða forsetakosningum sem fram munu fara þann 27. júní. Allir íbúar sveitarfélaganna fjögurra, 16 ára og eldri, munu hafa rétt til að taka þátt í kosningunum.

Auglýst var eftir hugmyndum að heiti á sameinað sveitarfélag í upphafi ársins og bárust 112 tillögur með 62 hugmyndum að heitum á nýtt sveitarfélag. Sautján tillögur fóru til umsagnar hjá Örnefnanefnd og samþykkt hefur verið að kosið verði milli nafnanna Austurþing, Austurþinghá, Drekabyggð, Múlabyggð, Múlaþing og Múlaþinghá.

 

16 ára og eldri mega kjósa

Kosningaaldur í nafnakosningunni verður 16 ára og gefin verður út sérstök kjörskrá sem miðar við það en verður að öðru leyti í samræmi við lög um kosningar til sveitarstjórna. Róbert Ragnarsson, verkefnisstjóri sameiningarinnar, segir að tillaga um þetta hafi komið frá fulltrúa ungmennaráðs í nafnanefnd sem skipuð var til að fara með málið. Undirbúningsstjórn hafi á endanum samþykkt tillöguna og vilji með því leggja aukna áherslu á aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku varðandi hið nýja sameinaða sveitarfélag.

 

Fá að velja það besta og næstbesta

Annað sem verður frábrugðið venjubundnum kosningum er að kjósendum verður boðið upp á raðval, það er að velja sinn fyrsta og annan valkost af þeim 6 tillögum sem kosið er á milli. Niðurstöður eru ekki bindandi og mun ný sveitarstjórn taka ákvörðun um nýtt heiti þegar hún kemur til starfa í október.

Róbert segir raðvalið gefa nýrri sveitarstjórn betri upplýsingar um vilja íbúanna. Það verði hins vegar að koma í ljós hversu skýrar niðurstöður verði úr kosningunum. Ef eitt nafn hljóti mjög afgerandi fylgi verði þó að telja líklegt að sveitarstjórn taki tillit til þess. Áframhaldandi undirbúningur sameiningarinnar geti þá einnig tekið mið af því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar