Neisti 100 ára: „Það er ærin ástæða til að fagna”
Heilmikil veisluhöld verða í Hótel Framtíð á Djúpavogi næstkomandi sunnudag í tilefni 100 ára afmælis ungmennafélagsins Neista.Í tilefni tímamótanna er öllum boðið í afmælisköku, kaffi og kakó á hótelinu klukkan 15:00, en þar verður sögu félagsins gerð skil með lifandi og skemmtilegum hætti. Greta Mjöll Samúelsdóttir, atvinnu- og menningarmálafulltrúi Djúpavogs, hefur setið í sérstakri afmælisnefnd sem sett var á laggirnar í undirbúningi afmælisins.
„Það er ærin ástæða til að fagna þessum merka viðburði. Ýmislegt skemmtilegt verður á dagskránni, svo sem mynda- og sögusýning, frumsýning nýrrar afmælistreyju Neista, úrslit nafnasamkeppni nýja húsnæðis Neista, auk þess sem dagatal afmælisársins verður kynnt og fleira. Þá verður varningur sem sérstaklega var hannaður í tengslum við afmælisárið til sölu,” segir Greta Mjöll.
Neisti hefur aðkomu að fjölmörgu yfir árið
Greta Mjöll segir tilvalið að nýta tilefni sem þetta til þess að benda á alla þá góðu hluti sem ungmennafélagið geri í samfélaginu.
„Starf Neista snýst um svo miklu meira en að þjálfa börn eftir hádegi. Það eru mýmargir viðburðir yfir árið sem Neisti sér um. Fyrir utan alla íþróttaþjálfun og viðburði í tengslum við hana stendur Neisti til dæmis fyrir árlegri spurningakeppni fyrirtækja á Djúpavogi, sér um hreyfivikuna sem alltaf er tekin alvarlega á Djúpavogi, félagið er oft með einhverja viðburði í tengslum við Hammondhátíð, sér alltaf um 17. júní hátíðarhöld og áramótabrennu, jólabingó svo eitthvað sé nefnd,” segir Greta Mjöll.