„Notó vonandi kominn til að vera“

Nytjamarkaðurinn Notó á Djúpavogi er starfræktur til styrktar barna- og unglingastarfi Djúpavogshrepps. Markaðurinn er nýr af nálinni en hefur farið mjög vel af stað.


Helga Rún Guðjónsdóttir er í forsvari fyrir Notó. „Það hefur verið í umræðunni lengi að það væri þörf á nytjamarkaði í þorpið. Í haust, á fyrsta fundi foreldrafélagsins, var fjallað um leiðir til fjáröflunar og þá kom þessi hugmynd upp. Þá var farið í leit að húsnæði, leitað var til sveitarstjóra og hann bauð fram hús sem ekki var í notkun yfir vetrartímann og hýsti áður bræðsluna,“ segir Helga Rún.

Það er foreldrafélag Grunnskóla Djúpavogs sem stendur að verkefninu með það að markmiði að hvetja börn og foreldra til að endurnýta og um leið að afla fjár til að efla barna- og unglingastarf. „Við viljum endilega að börnin sérstaklega taki þátt og því höfum við sett þau á vaktir með okkur, að sjálfsögðu er engin skylda fyrir þau að mæta en þau eru áhugasöm.“


Sólstofan á heiðurinn að nafninu notalega
Nafnið á einstaklega vel við markaðinn. „Við leituðum til auglýsingastofunnar Sólstofunnar í Berufirði en það vill svo heppilega til að einn meðlimur foreldrafélagsins vinnur á stofunni. Sólstofan gerði veggspjald fyrir markaðinn og fann upp á þessu notalega nafni.“

Helga Rún segir viðtökurnar hafa verið alveg frábærar. „Það eru flestir sammála um það að þörf var á nytjamarkaði hér og fólk er duglegt að koma með alls konar dót til okkar sem nýtist því ekki lengur en gæti nýst öðrum. Það hefur bara verið opið tvisvar sinnum og í bæði skiptin var góð mæting og sala.“

Almenn vakning fyrir endurnýtingu
Helga Rún segist sjálf finna fyrir aukinni vitund um endurnýtingu í samfélaginu. „Persónulega er ég mjög meðvituð um mikilvægi endurnýtingar en vil alltaf gera betur. Almennt tel ég fólk einnig vera það en það sýnir sig best í því hversu mikið af hlutum eru komnir til sölu á nytjamarkaðnum. Fólk vill ekki henda því sem er nytsamlegt og því var kærkomið að fá stað til að losa sig við góss. Það hefur líka verið mikil vitundarvakning með innleiðingu Cittaslow hvað varðar endurnýtingu, flokkun og fleira þessu tengt - Notó smellpassar inn í Cittaslow-menninguna hérna á Djúpavogi.“

Hver er framtíðarsýn Notó? „Þegar stórt er spurt! Við viljum náttúrulega að þessi markaður sé kominn til að vera. Húsnæðið er einungis tímabundið þar sem Rúllandi snjóbolti er þarna yfir sumartímann. Fyrst um sinn verður því bara opið á veturna. Okkar von er að þetta verði góð fjáröflun fyrir foreldrafélagið svo við getum gert meira fyrir börnin okkar hér og um leið að efla vitund um endurnýtingu í samfélaginu,“ segir Helga Rún.

Noto 900

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.