Nýstofnaður ferðaklasi og áætlanaferðir alla daga
Ferðaþjónustuaðilar á Hallormsstað og í Fljótsdal hafa stofnað til klasasamstarfs til að efla ferðaþjónustu á Upphéraði með sameiginlegri kynningu og áætlanaferðum frá Egilsstöðum. Í dag hófust ferðirnar á vegum Tanna Travel og verða þrjár ferðir á dag milli Egilsstaða og Végarðs í Fljótsdal allt til 3. ágúst.
Fyrsta ferð að morgni er frá Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum kl. 7:30 en síðasta ferð úr Fljótsdal er kl. 16:45. Stoppistöðvar eru á Skriðuklaustri, við Hengifoss og á Hallormsstað.
Forsvarsmenn verkefnisins fullyrða að óvíða á landinu sé á jafnlitlu svæði að finna viðlíka fjölbreytni í náttúru, áhugaverðum stöðum og þjónustu fyrir ferðamenn. Hallormsstaður og Fljótsdalur státa af stærsta skógi landsins, næsthæsta fossinum, aflmestu virkjuninni, klausturminjum, menningarsetri og vistvænni gestastofu fyrir stærsta þjóðgarð Evrópu. Á svæðinu eru allar tegundir af gistingu, allt frá svefnpokaplássi og tjaldsvæðum uppi í hótelsvítur og sumarhús. Þar er einnig að finna úrval gönguleiða, hesta- og bátaleigu og yfir sumarið eru starfsræktir þar þrír veitingastaðir sem leggja áherslu á hráefni svæðsins, s.s. hrútaber, lerkisveppi og hreindýrakjöt.
Að klasasamstarfinu standa ferðaþjónustuaðilar á Hallormsstað og í Fljótsdal ásamt, Landsvirkjun, Tanna Travel og Fljótsdalshreppi. Auk samvinnu um áætlanaferðirnar hefur klasinn gefið út sameiginlegan kynningarbækling á íslensku og ensku undir heitinu Njóttu lífsins við Lagarfljót.