Ný heilsugæsla á Reyðarfirði boðin út í vor?

Kristín Björg Albertsdóttir, sem um síðustu mánaðarmót lét af störfum sem forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands bindur vonir við að ný heilsugæslustöð á Reyðarfirði verði boðin út í vor. Stjórnendur stofnunarinnar hafa lagt áherslu á að stöðin rísi sem fyrst.


„Það var búið að gera drög að teikningum fyrir hrun en núna virðist aftur vera að komast skriður á málin. Það er búið að skipa verkefnastjóra á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins og við erum að senda frá okkur þarfagreiningu svo vonandi fer þetta af stað fljótlega. Það er talað um að ljúka undirbúningsferlinu í vetur og bjóða verkið út næsta vor,“ segir Kristín í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Bundnar eru vonir við að ný stöð á Reyðarfirði auðveldi að fá lækna til starfa eystra. „Það er krafa lækna og annars fagfólks í dag að vera hluti af stærri hóp til að geta ráðið ráðum sínum og haft stuðning og bakland.

Við sjáum fyrir okkur að stærri heilsugæsla á Reyðarfirði yrði þungamiðja þjónustunnar í Fjarðabyggð en áfram yrði sinnt heilbrigðisþjónustu á hinum stöðvunum, svo sem heilsuvernd.“

Bagalegt að hafa kröfuhafana í röðum

Þegar Kristín tók við starfi forstjóra um mitt ár 2013 var yfir 200 milljóna skuldahali á stofnuninni sem illa gekk að vinna á. Hann hefur nú verið skorinn af að mestu eftir að hagrætt var í rekstrinum þannig að afgangur varð að honum í fyrra.

„Þessi gamli uppsafnaði halli gerði fjárstreymið erfitt. Núna eru 38 milljónir eftir og þær eru ekki óyfirstíganlegar. Það breytir miklu að fjárstreymið er komið í þokkalegt lag.“

Fyrrum stjórnendur brugðu meðal annars á það ráð að taka yfirdrátt sem gagnrýnt var af Ríkisendurskoðun. „Það var ekki gert í minni tíð en fyrsta rekstrarárið vorum við eiginlega með ólina um hálsinn. Það var bagalegt að vera með kröfuhafana í löngum röðum og safna dráttarvöxtum.“

Sérfræðingar verði skikkaðir út á land

Þá hafa stjórnendur HSA barist fyrir þjónusta sérfræðinga verði tryggð á svæðinu. Hún er hins vegar ekki skilgreind sem hluti af skyldum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni í lögum, sem veita eiga almenna heilbrigðisþjónustu en menn vilji hafa þjónustuna í heimabyggð.

„Þess vegna reynum við að fá sérfræðinga á svæðið en það er baggi á stofnunum sem bera talsverðan kostnað við ferðir, uppihald og stundum laun. Við höfum beitt okkur fyrir að þjónustunni verði komið í þann farveg að henni fylgi fjármagn, hvort sem er beint á fjárlögum eða í gegnum Sjúkratryggingar.

Í samningum sérfræðinga við Sjúkratryggingar er nú komið þak á fjölda eininga og því minni akkur fyrir sérfræðinga að koma út á land ef þeir geta klárað sínar einingar á stofu í Reykjavík. HSA hefur náð samningum við SÍ vegna tiltekinnar sérfræðiþjónustu sem sérfræðingar geta nýtt þegar þeir koma austur.“

Í dag er lítill hvati fyrir sérfræðingana að fara út á land en sjúklingar verða hins vegar að fara suður sem tekur tíma og kostar peninga.

„Við viljum að sérfræðieiningum verði úthlutað eftir íbúafjölda og búsetu þannig að Austurland eigi tiltekna þjónustu. Við viljum að stýringin sé miðlæg en sérfræðingarnir hafi ekki bara sjálfdæmi um hvar þeir veita sína þjónustu. Íbúar landsbyggðarinnar eiga sama rétt á þjónustu og þeir sem búa í Reykjavík.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.