Ný könnun: Framsókn og Sjálfstæðisflokkur í frjálsu falli

Fylgi hrynur af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki í Norðausturkjördæmi meðan Viðreisn sækir áfram í sig veðrið, samkvæmt nýrri könnun sem Maskína birti í gær. Hreyfingarnar hafa veruleg áhrif á röðun þingmanna kjördæmisins.

Í gegnum tíðina hafa Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur verið stærstu flokkarnir í kjördæminu og þar með átt fyrsta þingmann kjördæmisins. Þeir mælast nú aðeins í kringum 8% og miðað við könnunina er staða þeirra það slæm að þeir eru með síðustu tvö kjördæmakjörnu sætin.

Samanborið við þjóðarpúls Gallup, frá því fyrir viku, tapa flokkarnir um þriðjungi af fylgi sínu. Á sama tíma heldur Viðreisn áfram að bæta við sig. Sá flokkur á nú tvo kjördæmakjörna þingmenn, líkt og Samfylking og Viðreisn.

Flokkur fólksins bætir áfram við sig fylgi og Vinstri græn líka. Í fyrsta skipti í aðdraganda kosninganna 30. nóvember kemst efsti maður listans á blað yfir þá sem eiga möguleika á þingsæti, þótt enn sé nokkuð langt í það.

Norðausturkjördæmi á tíu þingsæti og sýnir taflan hér að neðan þau miðað við úrslit úr kjördæminu. Tíunda sætið er hins vegar jöfnunarþingsæti og ræðst af úrslitum á landsvísu. Þess vegna er erfitt að segja til um hjá hvaða flokki það hafnar.

Í tölunum er lítill munur milli þriðju þingmanna Samfylkingar og Miðflokks og fyrsta þingmanns VG. Þeir eiga hins vegar töluvert í að slá út annan þingmann Flokks fólksins, sem er tæpur því hann er í jöfnunarsætinu. Hann vantar líka töluvert fylgi í að slá út síðustu kjördæmakjörnu sætin.

Miðað við þjóðarpúlsinn helmingar fylgi Pírata og er hreyfingin á svipuðum slóðum og Lýðræðisflokkurinn sem ekki mældist hjá Gallup.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar