Nýtingaráætlun mikilvæg í umræðuna um skipulag fjarðanna

Hjá Fjarðabyggð er unnið að nýtingaráætlun fyrir firði sveitarfélagsins. Kortlögð er núverandi nýting með það að markmiði að hægt sé að skipuleggja betur hvernig nýta megi þá í framtíðinni. Bæjarstjórinn gagnrýnir skort á löggjöf á þessu sviði.

Forsendur vinnunnar voru kynntar á íbúafundi á Reyðarfirði í gærkvöldi. Áætlunin á sér þó nokkurn aðdraganda.

Fjarðabyggð var meðal þeirra sveitarfélaga sem fyrir um ári gagnrýndu harðast tillögur þáverandi umhverfisráðherra um ný lög um stjórn haf- og strandsvæða. Sveitarfélög fara með skipulagsvald í landi og gerðu athugasemdir við að það næði ekki nema rétt út fyrir fjöruborðið.

Skipulaginu þar fyrir utan er skipt upp í stærri svæði og að stjórnun þeirra koma fulltrúar nokkurra ráðuneyta sem hafa meirihluta gegn heimamönnum. Gagnrýni sveitarfélaganna snérist annars vegar að með tillögunum væri ákvörðunarvaldið um ráðstöfun fjarðanna fært úr höndum heimamanna og hins vegar að hætta væri á að skipulag fjarða héldist ekki í hendur við skipulagið í landi.

Umræðan hefur aukist með hugmyndum um stóraukið fiskeldi, meðal annars í Fjarðabyggð. „Við ákváðum að gera nýtingaráætlunina til að nálgast þetta verkefni. Við höfum ekki skipulagsvaldið og löggjafinn hefur verið seinn til þannig við sjáum ekki annað en leyfisveitingar gangi að einhverju leyti eftir án þess að búið verði að festa skipulag fjarða í sessi.

Nýtingaráætlunin verður verðmætt plagg þegar hún verður orðin til. Með henni getum við með markvissari hætti gefið umsagnir og hagað málum þannig við höfum meira um þessar ákvarðanir að segja þótt við höfum ekki úrslitavaldið,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Staðsetning kvía skoðuð út frá siglingaleiðum

Að undanförnu hefur verið unnin forsendugreinin þar sem kortlögð er núverandi nýting fjarðanna svo sem siglingaleiðir, skipulag í landi, verndarsvæði, náttúrusvæði, efnistökusvæði og fleira. Út frá þessu er hægt að skoða nánar hvernig mismunandi nýting fer saman.

„Við sjáum til dæmis hvernig staðsetning kvía stemmir við annað, til dæmis siglingaleiðir. Ef við skoðum þetta ekki er hætt við að þær séu settar niður nánast án tillits til annarra þátta,“ segir Páll Björgvin en bendir um leið á að fiskeldið sé háð umhverfismati þar sem farið sé yfir ýmis atriði.

Rætt hefur verið við þá hagsmunaaðila sem þegar nýta firðina mest en í gærkvöldi var vinnan kynnt fyrir íbúum. Hann er ánægður með umræðurnar á fundinum.

„Eftir að við fórum að vinna með þessum hætti hefur verið góð og uppbyggileg umræða um málin. Við fengum ýmsar ábendingar í gær sem nýtast okkur við að klára kortlagninguna. Þá getum við farið að mynda okkur sterkari skoðanir á hvernig skipulagið í fjörðunum verður og með betri rökum bent á staðsetningu eldiskvía og umfang.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.