Nýtt tæki stóreykur rannsóknarmöguleika Matís í Neskaupstað
Fyrir nokkru bættist við þann rannsóknarbúnað sem Matís í Neskaupsstað hefur yfir að ráða og nú getur starfsstöðin veitt enn ítarlegri þjónustu til handa þeim fyrirtækjum sem hyggja á nýsköpun af einhverju tagi.
Stefán Þór Eysteinsson, fagstjóri Matís, segir nýja tækið í grunninn vera nokkurs konar skilvindu en það gangi jafnan undir heitinu skilsnælda. Það auðveldar Matís að skala upp rannsóknir á ýmis konar lífmassa frá því sem áður var hægt og í framhaldinu veita viðskiptavinum enn ítarlegri upplýsingar..
„Við höfum lengi verið að byggja upp þetta lífmassaver okkar og þetta tæki sem við vorum að fjárfesta í núna er svona ákveðið hryggjarstykki inn í þessa tækjasamstæðu okkar. Það gerir okkur kleift að halda áfram með þá rannsóknarvinnu sem við höfum verið að vinna og vöruþróun því samhliða.“
Þessi viðbót við tækjakostinn gerir Matís kleift að rannsaka nánast allan lífmassa sem hugsanlega er hægt að vinna áfram í einhvers konar vöru.
„Nú getum við einangrað og unnið með mun smærri agnir sem getur verið af ýmsum toga en tekur mið af því hvað framleiðendur eru að leita eftir. Þetta eykur möguleikana mikið frá því sem áður var. Nú getum við aðstoða flesta þá sem vilja vita meira um tiltekinn lífmassa og hvort og þá hvaða möguleikar eru fyrir hendi með vinnslu þess lífmassa. Þá getum við skoðað hvað er til staðar í hráefninu með tilliti til efnainnihalds og út frá þeim upplýsingum til dæmis hjálpað til við að finna út hvaða vinnsluaðferð gæfi besta raun í framhaldinu eða hvers konar forvinnsla þyrfti að fara fram áður en framleiðsla hefst.“
Nýja skilsnældan gefur Matís nú færi á að skala meira upp með það að markmiði að líkja betur eftir raunverulegum aðstæðum á framleiðslustað. Það getur nefninlega verið stór munur á því að finna lausnir á lítilli rannsóknarstofu og ná því sama fram á stórum framleiðslustað. Lífmassaverið getur lækkað mikið allan kostnað framleiðenda og sérstaklega áður en farið er í stórtækar fjárfestingar.
Tækið sem um ræðir er eitt „hryggjarstykkið“ í lífmassarannsóknarver Matís að sögn framkvæmdastjórans. Mynd aðsend