Óásættanlegt að öryggi landsbyggðarinnar sé ógnað vegna tregðu við að höggva tré

Samband sveitarfélaga á Austurland vill að sem fyrst verði leyst úr þeim vanda sem skapast hefur með takmörkun flugumferðar um Reykjavíkurflugvöll. Ástæðan eru tré í Öskjuhlíð sem eru of há og hindra flug til og frá vellinum. Byrjað var að fella fyrstu trén í morgun.

Á laugardag var lokað fyrir um braut 31/13, sem í grófum dráttum liggur frá vestri til austurs. Þar með er aðeins norður-suður braut vallarins opin. Ástæðan er trjágróður í nágrenninu sem flugmálayfirvöld telja of háan.

Ágreiningurinn snýr meðal annars að því hversu mörg tré séu of fá, borgin telur þau færri heldur en Samgöngustofa sem sinnir eftirlitinu. Reykjavíkurborg telur aðeins þörf á að fella 50 tré. Byrjað var að fella þau í morgun og er áætlað að um helmingurinn verði felldur í dag.

Óheft aðgengi lífsnauðsynlegt


Á fundi sínum á föstudag bókaði stjórn SSA um mikilvægi þess að öllum vafa um flugrekstraröryggi vallarins yrði eytt því óheft aðgengi að vellinum sé lífsnauðsynlegt fyrir sjúkraflug. Óásættanlegt sé að öryggi og aðgengi landsbyggðarinnar að innanlandsflugvellinum í Reykjavík sé stefnt í voða vegna tregðu borgaryfirvalda við að fækka trjám.

SSA bætir við að utan sjúkraflugsins hafi öll skerðing á flugi um Reykjavíkurflugvöll gríðarlega neikvæð áhrif á íbúa sem sæki þjónustu til Reykjavíkur og vilja fyrirtækja til að halda úti starfsemi fjærri höfuðborgarsvæðinu. Því er skorað á Reykjavíkurborg, stjórnvöld og Isavia, sem rekur flugvöllinn, að leysa málið sem fyrst til að tryggja aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu, samkvæmt lögum og annarri þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Lokun hefur áhrif á lífslíkur sjúklinga


Með bókun SSA er fylgt eftir yfirlýsingum Miðstöðvar sjúkraflugs á Íslandi vegna lokunarinnar, en að miðstöðinni standa Sjúkrahúsið á Akureyri, Slökkvilið Akureyrar og Norlandair en þessir aðilar hafa yfirumsjón með sjúkraflugi í landinu.

Samkvæmt upplýsingum frá miðstöðinni eru um 950-1000 sjúklingar fluttir árlega með sjúkraflugi, þar af 630-650 til Reykjavíkur. Í um 45% tilfella sé um að ræða sjúklinga sem nauðsynlega þurfi að komast í bráða þjónustu á Landsspítalanum, svo sem vegna kransæðastíflna, heilablóðfalla og háorkuáverka. Í slíkum tilfellum er ástand sjúklinga með þeim hætti að lengdur flutningstími, svo sem frá Keflavík, myndi draga verulega úr batahorfum eða lífslíkum.

Trén eru sérstaklega talin hafa áhrif í myrkri. Í gögnum Miðstöðvarinnar segir að hið minnsta 15% tilvika sjúkrafluga um Reykjavíkurflugvöll eigi sér stað í myrkri. Þess vegna sé mikið í húfi eftir lokun flugbrautarinnar. Flugbrautin er hins vegar alveg lokuð sem stendur.

Þá sé flugbraut 31/13 notuð í um 25% allra fluga á vellinum. Út frá því megi áætla að það eigi við um 160 sjúkraflug á ári eða 70 sjúklinga í hæstu forgangsflokkun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.