„Öll þekking er af hinu góða“

Marta Guðlaug Svavarsdóttir, nemandi við Verkmenntaskóla Austurlands, varð hlutskörpust íslenskra þátttakenda í sínum aldursflokki í Bebras tölvuáskoruninni sem haldin var fyrir jól. Þrátt fyrir það segist hún ekki stefna á frekara nám í forritun. 

Nemendur í forritunaráfanga á nýsköpunar- og tæknibraut í VA tóku þátt í tölvuáskoruninni sem fram fer samtímis í flestum löndum heims í nóvember ár hvert. Alls tóku 1.357 nemendur á Íslandi þátt í áskoruninni og komu þeir úr 24 skólum á Íslandi. Tölvuáskorunin kannar rökhugsun og tölvufærni með því að láta þátttakendur leysa krefjandi verkefni.

Námsbrautin var sett á laggirnar við skólann haustið 2016 og var forritun kennd þar í fyrsta skipti síðastliðið haust. Það er Þuríður Ragnheiður Sigurjónsdóttir sem kennir hana ásamt kennslu rafiðngreina, en hún er rafmagnstæknifræðingur að mennt. Hún segir forritunarnám mikilvægt og ekki einungis til að öðlast færni í forrituninni sjálfri, heldur einnig til að efla færni í rökhugsun og lausnamiðun.

„Ég er engin sérstök tölvumanneskja“

Marta Guðlaug hlaut samtals 143 stig í áskoruninni. „Ég var að taka þátt í þessu í fyrsta skipti og hafði þar af leiðandi ekki hugmynd út í hvað ég var að fara,“ segir Marta Guðlaug, sem er útskrifuð úr skólanum á tveimur brautum. Hún lauk námi í húsasmíði síðastliðið vor og til stúdentsprófs um jólin.

„Ég þurfti ekki að taka forritunaráfangann sem hluta af mínu námi, en hann vakti áhuga minn og ég ákvað að skella mér. Ég er engin sérstök tölvumanneskja og hafði því engar væntingar. Það kom mér á óvart hvað þetta getur verið skemmtilegt ef málin ganga upp, sem þau vissulega gera ekki alltaf. Þó svo ég stefni ekki á frekara nám í forritun er gott að fá aukinn skilning á tölvunni og hvað er á bak við öll þessi forrit. Öll þekking er af hinu góða og þetta er fín reynsla í bankann minn,“ sagði Marta Guðlaug að lokum.

Hefur áhuga á mörgu

Marta lauk námi í húsasmíði frá VA síðastliðið vor og er nú að klára samning sinn til sveinsprófs hjá í byggingardeild Launafls. Um jólin kláraði hún svo stúdentspróf frá sama skóla og útskrifast með það í vor. Í haust stefnir hún svo á nám við Hússtjórnarskólann í Hallormsstað.

„Er ekki um að gera að safna gráðum, svona fyrst maður er byrjaður,” segir Marta og hlær. „Ég ef áhuga á mörgu, meðal annars að elda, baka og handavinnu. Ég kynnti mér skólann á opnum dögum sem voru haldnir í VA fyrir tveimur árum, þá gafst okkur kostur á að fara í aðra skóla og ég heimsótti Hússtjórnarskólann og ákvað eftir það að ég myndi fara þangað þegar ég hefði lokið hinu.”

Marta segist annað slagið upplifa undrun fólks varðandi námsval hennar á smíðunum. „Það kemur stundum fyrir, fólk tekur mismunandi í þetta, langflestum þykir þetta bara sjálfsagt en það er erfiðara að eiga við aðra, halda að maður sé ekki nógu sterkur eða geti ekki hitt og þetta. Ég held þó að þetta sé hverfandi viðhorf og Fagkvennafélagið á sinn þátt í því.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.