Öllum átta batnað
Allir þeir átta Austfirðingar, sem smitast hafa af covid-19 veirunni, hafa nú náð bata. Ekkert virkt smit er því í fjórðungnum.Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurldans.
Fyrsta smitið greindist þann 24. mars og fyrstu sextán dagana greindust átta smit. Síðast kom upp smit á svæðinu þann 9. apríl.
Enginn er því smitaður af veirunni og aðeins fjórir eftir í sóttkví.
Þótt staðan sé góð hvetur aðgerðastjórn þó áfram til varfærni. Hjarðónæmi er lítið sem ekkert á svæðinu og Austfirðingar því jafn útsettir fyrir smiti og þeir voru í upphafi faraldursins.
„Gleðjumst yfir niðurstöðunni, bíðum 4. maí, njótum hækkandi sólar og njótum lífsins hér á Austurlandi. Við erum á réttri leið,“ segir í tilkynningunni.