Öxi sjaldan verið opnuð jafn snemma

Vegurinn yfir Öxi var opnaður á föstudag. Hann hefur sjaldan í sögunni verið opnaður jafn snemma og er fær mánuði fyrr en í fyrra. Veðurfarið ræður hve mikið er hægt að halda honum opnum fram eftir vori.

Byrjað var að moka snjó af veginum á fimmtudagsmorgunn. Næst í röðinni var að rífa svellin af honum og hálkuverja. Því lauk undir kvöldmat á föstudag og var vegurinn opinn um helgina. „Við vorum búin að gefa út að það yrði reynt að opna Öxi fyrr en áður ef hægt væri,“ segir Sveinn Sveinsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar.

Öxi er núna opnuð um mánuði fyrr en í meðalári. Sveinn segir hægt hafi verið að opna veginn því snjólétt hafi verið á Öxi. Hins vegar hafi rignt þegar byrjað var að opna og veita þurfti vatni í burtu.

Vetrarþjónusta á Öxi fellur undir G-snjómokstursreglu. Samkvæmt henni er heimilt að moka tvo daga í viku vor og haust á meðan snjólétt er, það er að nóg sé að senda snjómokstursbíl af stað. Vortímabilið er frá 20. mars.

Þá er heimilt að moka slíka vegi einu sinni í viku fyrir þann tíma að beiðni og gegn helmingsgreiðslu sveitarfélags. Er þá miðað við að fært sé fyrir fjórhjóladrifin ökutæki. Kostnaður við þetta má ekki vera meira en þrefaldur á við það sem er þegar leiðin telst snjólétt. Það ræðst því af veðurfari og kostnaði hvort áfram takist að halda Öxi opinni.

Breiðdalsheiði og leiðin til Mjóafjarðar hafa oft verið opnaðar um svipað leyti og Öxi. Aðstæður þar verða metnar á næstunni en spáð er úrkomu í vikunni. Lítill snjór virðist á Breiðdalsheiði en sá vegur er alla jafna ekki mikið notaður. Vegagerðin hefur ekki upplýsingar um stöðuna á Mjóafjarðarheiðinni.

Opnunardagar á Öxi


2012 28. febrúar
2013 10. apríl
2014 23. apríl
2015 17. apríl
2016 20. apríl
2017 29. mars
2018 23. mars
2019 7. apríl
2020 8. maí
2021 19.3 (lokaði aftur 26. mars og opnaði aftur 31. mars)
2022 25. mars
2023 8. apríl
2024 8. mars

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.