Öfgalaus umræða skilyrði fyrir bættu öryggi á vinnustað

Einföld boð sem birtast oft og skýr markmið eru frumskilyrði þess að takast megi að breyta öryggismenningu á vinnustað. Starfsmenn verða að finna til þess að þeir verði ekki fordæmdir til að þeir þori að ræða mistök sem aftur sé forsenda framfara.


Þetta segir Eggert Már Sigtryggsson, öryggissérfræðingur hjá VHE, en hann hélt erindi um innleiðingu öryggismenningar á ráðstefnu sem Vinnueftirlitið stóð fyrir á Egilsstöðum nýverið.

Öryggismenningin felst í þremur skrefum. Í fyrsta lagi geta ósjálfstæðir, á því stigi fara menn eftir reglunum til að þeir séu ekki gripnir og refsað. Næsta skref er að vera sjálfstæður, fara eftir reglunni til að meiða sig ekki en fylgist ekki með hvernig öðrum gengur.

Þriðja skrefið eru gagnvirkni þar sem samskiptin eru opin og hópurinn sættir sig ekki við óæskilega hegðun einstaklings.

„Það skiptir miklu máli að hafa umræðuna öfgalausa til að menn viðurkenni frekar vandamálin. Það er stöðugt unnið að umbótum og það er ekki gert nema mistökin séu rædd.“

Þekkt er að þegar breytingar eru í aðsigi séu 20% starfsmanna sem styðji þær strax, 20% séu á móti og 60% hlutlaus en geti sveigst eftir í hvora áttina togað sé fastar. Eggert segist stundum hafa orðið var við hugarfarið um að menn vilji ekki breyta þar sem þeir hafi gert hlutina eins í 20 ár án þess að nokkuð hafi komið upp á. Þá sé lag að reyna að fela þeim öryggisverkefni til að fá þá með.

„Það er mikilvægt að búa til gildi, markmið og ferli sem fólk getur samsvarað sig við. Hjá okkur hefur markmiðið verið að það verði engin slys. Mér fannst ég ekki sjá mikinn árangur fyrr en við vorum komin með skýrt markmið sem allir gátu sameinast um.“

Síðan þarf eftirfylgnina. Endurvinna starfslýsingar, ræða reglulega við starfsmenn og benda þeim á hvað hægt sé að gera og mæla árangurinn til að sýna starfsmönnum að þeir nálgist markmiðið. Nauðsynlegt sé að stjórnendur gangi á undan með góðu fordæmi. „Nýtt fólk lærir 80% af því sem fyrir því er haft. Stjórnendur verða alveg eins að hafa öryggishugsun eins og starfsmennirnir.“

Til að hamra inn skilaboðin séu skilaboðin einföld og þau burt á sem flestum stöðum. „Heilbrigður vinnustaður er þar sem starfsmenn eiga sameiginleg markmið um að koma heilir heim. Að því þurfum við að vinna saman.“

Það virðist hafa tekist við byggingu nýs frystihúss Eskju þar sem unnar voru hátt í 200 þúsund vinnustundir án fjarvistar. „Það er greinilegt að öryggishugsun inn í alla þætti skilar sér.“

Þrisvar sinnum í ár hefur VHE hins vegar verið dæmt skaðabótaskylt vegna vinnuslysa í álveri Alcoa. Í einu tilfelli virðist fyrirtækið ekki hafa uppfyllt skyldu um að tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins. Slysin urðu árin 2012 og 2013.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.