Olga Vocal Ensemble á ferð um Austurland

Alþjóðlegi sönghópurinn Olga Vocal Ensemble heldur þrenna tónleika á Austurlandi á næstu dögum. Tónleikarnir bera yfirskriftina „It‘s a Woman‘s World“ og fagnar listakonum síðustu 1000 ára, líkt og samnefnd plata hópsins sem kom út í byrjun sumars.

Þema tónleikanna er femínismi. Á efnisskránni eru meðal annars lög eftir Hildegard von Bingen sem fædd var árið 1098 og Barböru Strozzi sem var uppi á 16. öld.

Einnig verða flutt lög sem eru hvað þekkust í flutningi frægra söngkvenna, má þar nefna Ninu Simone, Edith Piaf og Billie Holliday. Einnig eru á efnisskránni fjögur lög sem samin voru sérstaklega fyrir sönghópinn.

Olga Vocal Ensemble sönghópurinn hefur verið starfræktur frá árinu 2012. Hópurinn hélt sína fyrstu tónleika á Íslandi sumarið 2013 og hefur heimsótt Ísland á hverju ári síðan þá.

Hópurinn er skipaður 5 strákum sem allir eru búsettir í Hollandi, Hollendingunum Jonathan Ploeg og Arjan Lienaerts, Englendingnum Matthew Lawrence Smith, rússneska Bandaríkjamanninum Philip Barkhudarov og Íslendingnum Pétri Oddbergi Heimissyni.

Fyrstu tónleikarnir verða í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði klukkan 20:30 í kvöld en þeir marka jafnframt upphaf 20 ára afmælissumars tónleikaraðar Bláu kirkjunnar.

Á laugardagskvöld kemur hópurinn fram í Havarí í Berufirði en Austfjarðarúntinum lýkur í Egilsstaðakirkju klukkan17:00 á sunnudag. Þeir tónleikar eru jafnframt hinir síðustu í röð Tónlistarstunda 2018 í Egilsstaða- og Vallaneskirkjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar