Olíuverð þarf að hækka til að vinnsla á Drekasvæðinu borgi sig

Vísbendingar eru um góðar olíulindir á Drekasvæðinu en olíuverð í dag er of lágt til að vinnsla borgi sig. Líklegast er að uppbygging þar hefjist í tengslum við námavinnslu á Grænlandi.


Þetta er meðal þess sem fram kom á íbúafundi um uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði sem haldinn var á Vopnafirði fyrir skemmstu.

Hafsteinn Helgason frá verkfræðistofunni Eflu skýrði frá því að tvívíðar mælingar hefðu gefið það góða niðurstöðu að strax hefði verið ákveðið að fara í þrívíðar mælingar. Niðurstaða þeirra benda til að þrjár stórar olíulindir, með minnst einum milljarði tunna hver, séu fundnar á svæðinu.

Ekkert leyfi er hins vegar enn komið fyrir vinnslu og olíuverð þarf að hækka til að vinnsla á svæðinu borgi sig.

Námavinnsla á Grænlandi

Það eru Bremports, fyrirtæki eigu Brimarborgar í Þýskalandi, sem samið hefur um undirbúning hafnar í Finnafirði. Fyrirtækið rekur í dag tvær stórar hafnir, annars vegar í Bremen sjálfri og hins vegar Bremenhaven.

Olíuvinnsla er hins vegar ekki það sem er talið líklegast að verði hvatinn að stórskipahöfn á Norðausturhorninu heldur námavinnsla á Grænlandi þar sem verðmæta og sjaldgæfa málma er að finna. Hafsteinn lýsti þeirri skoðun sinni að umferð um Finnafjörð gæti hafist fyrr en fulltrúar Bremenports hafa spáð. Djúprista við dýpstu hafnir hérlendis í dag sé ekki nema 10 metrar en stærstu flutningaskip risti allt að 26 metra.

Fleiri notkunarmöguleikar koma til greina, svo sem umskipunarhöfn fyrir gáma ef leið opnast um norðursslóðir. Hafsteinn sagði hins vegar að erfitt væri að spá fyrir um þróunina þar. Þá geti vaknað áhugi á björgunarhöfn fyrir norðurslóðir og jafn aðstöðu fyrir flotaskip Nato ríkja í ljósi umsvifa Rússa á norðurslóðum.

Enginn veit hvað verður

Gert er ráð fyrir að uppbygging verði með sama hætti og við Faxaflóa. Að hafnarfyrirtækið byggi hafnarkantana en sveitarfélögin eigi landið. Dr. Lars Stemmler, yfirmaður alþjóðasviðs Bremenports kynnti mögulega aðferðafræði við uppbyggingu hafnarinnar sem veltur meðal annars á notkuninni. Töluverða landfyllingu þarf undir höfnina og var meðal annars nefnt að nota mætti frákast af vinnslu á Grænlandi til þess.

Nokkrir möguleikar eru líka í boði við rekstur hafnarinnar. Lars sagði að stofna þyrfti þróunarfélag til að rannsaka svæðið, klára skipulagsmál og þess háttar. Þá sé hægt að gera útboðsgögn og kalla fleiri áhugasama aðila að borðinu.

Miðað við núverandi tímaáætlanir er gert ráð fyrir þróunarferli til 2018 en lokastig þróunar og útboð verði 2019-2020. Framkvæmdir við höfnina gætu farið á fullt 2020-2022. Markaðssetning til skipafélaga tekur um tvö ár. Hafsteinn sagði að ríkið yrði að styrkja sveitarfélögin Vopnafjarðarhrepp og Langanesbyggð til þróunarstarfs, þau geti ekki tekið áhættuna alla sjálf.

Þá var ferðin notuð til að funda með landeigendum við Finnafjörð enda talið mikilvægt að þeir séu með frá upphafi. „Uppbyggingin getur þess vegna átt sér stað á 50 árum. Það veit enginn með vissu hvort einhver sýnir því áhuga að fara inní Finnafjörð,“ sagði Lars.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.