Orkuskipti á Austurlandi: Tæknin orðin ódýrari fyrr en fólk þorði að vona

Hjá Austurbrú er að komast á laggirnar verkefni um orkuskipti á Austurlandi þar sem horft er á uppbyggingu innviða fyrir rafmagnsbíla, nýja orkugjafa í sjávarútvegi og betri nýtingu á orku til húshitunar. Verkefnisstjóri segir tæknina vera fyrr komna á viðráðanlegt verð en reiknað var með.


„Við höfum fundið þörf fyrir þetta og það hefur verið umræða á svæðinu. Það kom í ljós að margir voru til í að taka þátt í umsókn sem við sendum til Orkusjóðs,“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, við kynningu á verkefninu í síðustu viku.

Sótt hefur verið til Orkusjóðs um uppbyggingu innviða fyrir rafmagnsbíla á Austurlandi. Ýmsir aðilar eru með í þeirri umsókn, meðal annars Skeljungur sem heitið hefur að koma upp 3 hleðslustöðvum í fjórðungnum fái verkefnið brautargengi en sveitarfélögin 25 svo samtals yrðu þær 28.

Mikil nýting og vinnsla á svæðinu

„Það hefur þótt sjálfgefið að vistvænar lausnir í orkumálum, sérstaklega fyrir samgöngum séu dýrari en notkun á olíu. En ef maður hugsar þetta bara svona út frá því hvort ætti að vera ódýrara, að nota orkuna úr lækjunum og ánum í umhverfi okkar eða að bora djúpt í jörðu langt úti á Norðursjó til þess að sækja olíu þá er erfitt að átta sig á því hvers vegna það ætti að vera ódýrar að nota olíuna.

Það er hins vegar erfitt að bera saman iðnað í frumbernsku við iðnað sem er mjög þroskaður. Verð á þeirri tækni sem við þurfum til að vinna orku og eiga orkuskipti í samgöngum hefur fallið hraðar en fólk þorði að vona fyrir nokkrum árum. Ef verð á rafhlöðum þróast eins og það hefur gert verða bensínbílar ekki lengur samkeppnishæfir við rafbíla upp úr 2020,“ sagði verkefnisstjórinn, Jón Steinar Garðarsson Mýrdal.


Hann benti á að Austurland bæði framleiði og noti mikla orku en hún sé ekki alltaf trygg. Þannig séu fyrirtæki á svæðinu kaupendur að 51% af skerðanlegri raforku í iðnaði og þar fari fiskimjölsbræðslurnar fremstar. Þá kaupi austfirsk skip 22% þeirrar olíu sem íslenski flotinn notar. „Á Austurlandi er einna mest orkuvinnsla og nýting en svæðið stendur ekki jafnfætis öðrum hvað varðar innviði orkukerfisins,“ sagði Jón.

Fjárfesting í heimabyggð

Orkuskipti í haftengdri starfsemi svo sem með raftengingu fyrir skip, vistvænt eldsneyti og jafnvel rafmagnsvélar í minni báta er eitt af áhersluatriðum verkefnisins. Þetta gæti jafnframt reynst atvinnuskapandi. „Fjárfestingin er aðallega í staðbundinni atvinnuþróun, hvort sem er hér eystra eða á Íslandi, til dæmis ef togararnir gætu nýtt lífrænan úrgang.“

Þriðja áhersluatriðið er húshitun en 22% rafkyntra húsa á Íslandi eru í fjórðungnum. „Með varmadælum í stað rafkyndingar næst tvöfalt betri orkunýting.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.