Ósamið við bílaleigurnar um bílastæði

Isavia hefur ekki enn gengið frá samningum við þær bílaleigur sem nýta bílastæði við flugvöllinn á Egilsstöðum til að geyma bíla sína. Framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar gagnrýnir áformin.

Gjaldtaka á bílastæði við flugvellina á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík hófst á þriðjudag. Þann morgun var enn töluvert af bílaleigubílum í þeim stæðum sem eru malbikuð á Egilsstöðum.

Austurfrétt óskaði í framhaldinu eftir upplýsingum frá Isavia Innanlandsflugvöllum um hvað bílaleigurnar myndu borga fyrir stæðin og hvort í slíkum samningum væru ákvæði um staðsetningu og fjölda. Í svari fyrirtækisins segir að enn sé verið að vinna í samningum við leigurnar um aðstöðu og skilgreind svæði.

Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Steingrími Birgissyni, framkvæmdastjóra Bílaleigu Akureyrar að skilningur sé fyrir að innheimt sé gjald af leigunum fyrir stæði. Það hafi verið gert í áratugi en málið snúist um sanngirni.

Nú sé að ræða mikla hækkun sem skellt sé á án samráðs. Hann segir hana „óraunhæfa“ og áætlar að hún tífaldi kostnað fyrirtækjanna sem muni velta þeim út í verð til viðskiptavina. Steingrímur kallar hækkunina „síðasta naglann í líkkistu innanlandsflugs.“

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar