Óttast að loka þurfi stígnum upp að Hengifossi: Þetta er afleit staða

Sveitarstjórn Fljótsdalshrepps óttast að grípa þurfi til lokana á stígnum upp að Hengifossi, einni vinsælustu náttúruperlu Austurlands, vegna versnandi ástands hans við ákveðnar aðstæður. Umsókn hreppsins til framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um styrk í ár var hafnað.


„Þetta er afleit staða. Stígurinn getur verið varasamur við vissar aðstæður, sérstaklega þegar blautt eins og í fyrra. Þá fótbrotnaði einn ferðamaður og við vitum af fleiri minni óhöppum,“ segir Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti.

Í bókun sveitarstjórnar segir að vegna slysahættu, slæms ástands stígsins og neitunar á styrkumsókninni telji hún að hugsanlega þurfi að loka stígnum.

Gunnþórunn viðurkennir hins vegar að það sé flókið. „Stígurinn liggur um land í einkaeigu þar sem sveitarstjórn hefur takmarkaða lögsögu. Það þyrfti því sameiginlega ákvörðun landeiganda og sveitarfélagsins og til þessa úrræðis verður varla gripið nema í nauðsyn, til dæmis ef slysatíðni eykst.“

Efsti hluti göngustígsins getur verið varasamur. Farið er um mel og skriðu í bratta niður í gilið og þar tekur við stórgrýti og síðan erfið brekka rétt áður en komið er að fossinum.

Til viðbótar er svæðið að skemmast. Stígarnir hafa grafist niður undan álagi og þá byrjar fólk að ganga utan slóðar þannig að nýjar götur myndast. Umferð hefur aukist síðustu ár og útlit er fyrir að sú þróun haldi áfram.

Sótt var um tíu milljóna styrk til lagfæringar á stígnum, ljúka framkvæmdum á bílaplani og hanna þjónustuhús. Gunnþórunn segir stefnt að klára bílaplanið og undirbúa hönnun þjónustuhússins í ár þrátt fyrir að styrkurinn hafi ekki fengist. Hún bindur vonir við úthlutun til stígsins á næsta ári.

Sjóðurinn hefur styrkt uppbyggingu við Hengifoss síðustu ár og í fyrra var lokið við gerð deiliskipulags. Fljótsdælingar hafa óskað eftir skriflegum rökstuðningi stjórnar sjóðsins fyrir höfnuninni.

„Við héldum að umsókn okkar fyrir staðinn uppfyllti öll helstu áhersluatriði. Við höfum verið í uppbyggingarferli og það kom okkur mjög á óvart að fá engan styrk úr sjóðnum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.