Óvissustig vegna eldgoss í Bárðarbungu: Ekki gert ráð fyrir beinum áhrifum á Austurland
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórana á Austurlandi, Norðurlandi eystra og Suðurlandi, lýstu á hádegi yfir óvissustigi almannavarna vegna aukinnar skjálftavirkni í Bárðarbungu. Af hálfu almannavarna á Austurlandi er fylgst með þróun mála en ekki er talið að gos þar hefði bein áhrif á Austurlandi.Klukkan sex í morgun hófst skjálftahrina í Bárðarbungu. Í athugasemd frá vaktmanni Veðurstofunnar segir að hrinan sé í norðvestanverðri öskjunni og þyki nokkuð óvenjuleg. Jarðvísindamenn hafa þó lýst atburðarásinni sem svipaðri þeirri sem leiddi til goss í Holuhrauni haustið 2014.
Stærsti skjálftinn í hrinunni varð rétt rúmlega átta í morgun af stærðinni 4,9. Tveir aðrir skjálftar voru yfir 4 af stærð. Þeir voru allir rúma 3 km norðaustur af Bárðarbungu. Síðasti skjálftinn mældist klukkan níu.
Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir að fylgst sé náið með þróuninni af hálfu Veðurstofunnar og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Fulltrúar frá almannavörnum á Austurlandi sátu í morgun fund þar sem farið var yfir stöðuna.
Hvert er hlutverk Austfirðinga í eldgosi í Bárðarbungu?
Óvissustig þýðir að eftirlit er aukið með atburðarás sem síðar gæti ógnað heilsu eða öryggi fólks, umhverfis eða byggðar. Liður í því er til dæmis að tryggja að allt lögreglufólk á Austurlandi þekki hlutverk sitt samkvæmt viðbragðsáætlun. Kristján Ólafur segir að sú vinna hafi farið í gang um leið og óvissustiginu var lýst yfir.
Almennt er ekki gert ráð fyrir að gos í Bárðarbungu hefði mikil bein áhrif á Austurlandi. Mesta hættan af gosi þar yrði í formi flóða, annað hvort til suðurs niður Skeiðarársand ein og gerðist árið 1996 eða til norðurs líklegast niður Jökulsá á Fjöllum eða jafnvel Skjálfandafljót. Í viðbragðsáætluninni eru leiðbeiningar um rýmingar í Þingeyjasýslum.
Í viðbragðsáætlun eru lögreglustöðvarnar á Austurlandi og Vopnafirði, auk björgunarsveitanna á Fljótsdalshéraði, Vopnafirði og í Jökuldal með skilgreind hlutverk og síðan svæðisstjórn á Austurlandi. Verkefnin felast í að aðstoða viðbragðsaðila á Norðurlandi, einkum Húsavík, leiðbeina fólki sem er nærri eldgosasvæðinu til byggða og manna lokunarpósta. Á óvissustigi er lagt að þessum aðilum að yfirfara búnað sinn og tryggja að hann sé tiltækur.
Óvissustig vegna Öskju á fjórða ár
Óbein áhrif goss á austfirskt samfélag gætu hins vegar orðið umtalsverð ef flóðin taka vegasamgöngur úr skorðum. Mengun vegna ösku eða gass, eins og gerðist árið 2014, er einnig möguleg.
Brugðið getur til beggja vona eftir jarðumbrot eins og í morgun. Þannig má benda á að á forsíðu heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er áminning um að óvissustig er í gildi vegna landriss við Öskju og mögulegs eldgoss þar. Það óvissustig hefur verið í gildi frá því í september 2021.