Rælni að ég stoppaði til að athuga hvað væri að gerast

Bílstjóri flutningsbíls sem brann á veginum yfir Oddsskarð segir bílinn hafa orðið alelda á örskammri stundu. Það hafi verið heppni að hann stöðvaði bílinn til að kanna hvað væri að frekar en halda áfram.


„Ég verð var við pínulítinn reyk aftan úr bílnum og var ekki viss um hvort það væri snjór að fjúka.

Ég ákvað af rælni að stoppa til að kíkja og kom bílnum í minni bratta. Þá sé ég smá smá loga undir húsinu sem ég reyni að slökkva við slökkvitæki.

Ég náði honum tvisvar niður en hann blossaði upp jafn óðum. Þá áttaði ég mig á að slökkvitækið dugði ekki og ekki annað að gera en hringja í slökkviliðið. Ég stökk upp í bílinn, greip töskuna mína, símann og kuldagallann og henti út í skafl.“

Þannig lýsir Bergþór Steinar Bjarnason atburðarásinn þegar vörubíll með flutningabíl hlaðinn fiski frá Norðfirði, á leið til Dalvíkur, gereyðilagðist í eldsvoða á Oddsskaði á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Hann segir bílinn sjálfan hafa verið orðinn alelda 2-3 mínútum síðar. Hvasst var á Oddsskarði í gær og stóð vindurinn á hlið þannig að nokkurn tíma tók fyrir eldinn að berast yfir í tengivagninn.

Hann var hins vegar orðinn alelda þegar slökkviliðið kom frá Reyðarfirði. Það slökkti í bílnum en kláraði um leið það vatn sem var til staðar. Nokkrar mínútur liðu áður en tankbíll kom frá Norðfirði með meira til að hægt væri að slökkva í vagninum.

Bíllinn er gjörónýtur og frystivagninn að mestu leyti einnig. Bergþór er þakklátur fyrir að hafa stoppað. „Það var heppni að ég gerði það frekar en keyra áfram niður því ég var ekkert viss um að þetta væri reykur.“

Mynd: Kristín Hávarðsdóttir

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.