Reiknað með 160 milljóna afgangi hjá Fljótsdalshéraði

Gert er ráð fyrir 160 milljóna afgangi af rekstri sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs í nýsamþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Mest framkvæmdafé fer í skóla- og íþróttamannvirki.

Reiknað er með að heildartekjur sveitarfélagsins nemi 4,7 milljörðum króna og hrein rekstrargjöld 3,8 milljörðum. Rúmur helmingur þeirra fer til fræðslu- og uppeldismála. Búist er við nokkurri hækkun útsvarstekna, upp á 7,3%.

Stærstu nýframkvæmdirnar á árinu eru viðbygging við leikskólann Hádegishöfða í Fellabæ, fimleikahús og útikörfuboltavöllur á Egilsstöðum. Þessi verkefni kosta samanlagt 572 milljónir og verður lokið árið 2021.

Þá verður byrjað á endurbótum við Safnahúsið og Sláturhúsið sem lýkur árið 2022. Þær kosta alls 442 milljónir en hluti fjármagnsins kemur frá ríkinu.

Áætlað framkvæmdafé Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) á næsta ári er 143 milljónir og verður að mestu varið til vinnu við fyrsta áfanga í nýrri fráveitu. Upphæðin var lækkuð úr 209 milljónum á milli fyrstu og annarrar umræðu fjárhagsáætlunar og um leið minnkaði lánsfjárþörf sveitarfélagsins úr 100 milljónum í 45.

Af öðrum sérstökum verkefnum á næsta ári sem nefnd eru í áætlanir má nefna 20 milljónir til ljósleiðaraverkefna í sveitarfélaginu, fjármagn til landvörslu á Úthéraði og viðbótarframlags til leikskóla- og dagvistunarmála vegna sérstakrar ungbarnadeildar fyrri hluta ársins 2019.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar