„Rétt að aðstæður eru með öllu óviðeigandi“

Íbúðalánasjóður hefur lýst vilja til að kaupa eign íbúðareiganda á Stöðvarfirði sem á hluta af húsi á móti sjóðnum. Sjóðurinn hefur ekki sinnt viðhaldi í áraraðir en virðist hafa tekið sér eftir umfjöllun fjölmiðla.

Það var Austurglugginn sem sagði fyrst frá aðstæðum Lilju Jóhannsdóttur, eigenda íbúðarinnar að Fjarðabraut 48 á Stöðvarfirði en meirihluti hússins er í eigu Íbúðalánasjóðs.

Í samtali við Austurgluggann lýsti Lilja því að hún svæfi í eldhúsinu til að heyra ekki í músagangi sem annars héldi fyrir henni vöku en mýsnar komast upp undir klæðningu hússins. Hún sagði einnig frá því að þak hússins væri ónýtt og það ylli rakaskemmdum og mygli á hennar eign. Sá hluti frásagnar hennar er staðfestur í úttekt heilbrigðisfulltrúa frá ársbyrjun 2016.

Ófullnægjandi viðgerð

Stærsta vandamálið þá var talinn leki með fram svölun. Eftir skoðunina, sem gerð var að viðstöddum fulltrúa sjóðsins, ritar fulltrúinn að rætt hafi verið um að fjarlægja þær. Sumarið 2017 var farið í viðgerð á svölunum og þær klæddar. Sú viðgerð reyndist ófullnægjandi og hefur leki meðfram svölunum í vetur valdið enn frekari skemmdum á eign Lilju.

Hún kveðst hafa reynt að fá sjóðinn til að sinna viðhaldi í minnst fjögur ár án árangurs. Svörin hafi verið á þá leið að sjóðurinn sinni ekki slíku viðhaldi, heldur lækki frekar ásett verð í von um sölu. Útlitið væri þannig að hún þurfi að flytja út úr íbúðinni sem hún eigi skuldlausa án þess að fá nokkuð fyrir hana.

Tilkynning tveimur tímum eftir sjónvarpsfréttir

Austurglugginn lagði spurningar fyrir Íbúðalánasjóð í tengslum við umfjöllun blaðsins fyrir rúmum tveimur vikum. Þrátt fyrir loforð um annað og ítrekanir hefur þeim ekki verið svarað beint. Austurglugganum/Austurfrétt barst hins vegar yfirlýsing frá Íbúðalánasjóði tveimur tímum eftir að greint var frá málinu í sjónvarpsfréttum RÚV í gær.

Í tilkynningunni segir að rétt sé að aðstæður Lilju í dag séu „með öllu óviðunandi.“ Vegna skorts á viðhaldi búi hún við „óheilsusamlegar aðstæður. Nauðsynlegt er að fara í stórfelldar viðgerðir á húsinu í heild til að það verði íbúðarhæft til lengri tíma litið.“

Skoða kaup á íbúðinni

Áður en Austurglugginn birti sína umfjöllun bárust blaðinu upplýsingar um að sjóðurinn ynni að lausn á máli Lilju og eftir að blaðið kom út fékk það upplýsingar um að sjóðurinn hefði haft samband við Lilju og lýst yfir vilja til að kaupa hennar eign. Í yfirlýsingunni frá í gærkvöldi er staðfest að sjóðurinn skoði að kaupa íbúð Lilju

Þar segir að sjóðurinn vinni að viðunandi lausn á málinu í samvinnu við Lilju. Íbúð sjóðsins hafi verið á sölulista í áraraðir og enginn búið í henni á meðan. Eftir því sem Austurglugginn/Austurfrétt kemst næst hefur íbúðin verið auð í þrjú ár eftir að sjóðurinn neitaði Rauða krossinum, sem var þar með nytjaverslun, um áframhaldandi leigu.

Forsaga málsins er rakin enn frekar í tilkynningunni. „Íbúð sjóðsins í húsinu hefur verið á sölulista í áraraðir og hefur enginn búið í henni á meðan. Ætlan sjóðsins var að selja íbúðina svo fljótt sem verða mætti en það hefur því miður ekki gengið eftir vegna lítils áhuga kaupenda.

Ljóst er að báðar íbúðir eru illseljanlegar að óbreyttu. Vegna þessa hefur sjóðurinn það nú til skoðunar að kaupa eignarhluta viðkomandi í húsinu og vonast svo til að einhver sjái sér þá frekar hag í að kaupa það í einu lagi og ráðast í heildarendurbætur á eigninni. Með þessari leið fær eigandi hinnar íbúðarinnar um leið viðunandi lausn sinna mála.“

Skylt að forða tjóni á sameign

Í lögum 26/1994 um fjöleignarhús er kveðið á um réttindi og skyldur eigenda séreigna í fjölbýlishúsum. Þar segir meðal annars að eiganda sé skylt að gera ráðstafanir til að forða tjóni á sameign eða eignahlutum annarra. Sinni hann því ekki geti hann skapað sér skaðabótaskyldu.

Þá eru ákvæði sem heimila öðrum eigendum að láta gera við og senda reikninginn á trassann í samræmi við hlutfall í eign. Fyrst skal þó látið reyna á húsfund. Undir sameign fellur meðal annars allt ytra byrði húss, burðarvirki, lóð, lagnir og gluggabúnaður, líka á séreign.

Auk almennra viðbragða frá sjóðnum við sögu Lilju óskaði Austurglugginn eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

Hver er stefna ÍLS með viðhald fasteigna sjóðsins á landsbyggðinni?
Hver er ábyrgð ÍLS hvað varðar viðhald húsa sem sjóðurinn á á móti öðrum?
Tekur ÍLS að einhverju leyti til skoðunar aðstæður í hverju tilfelli fyrir sig?
Hefur ÍLS greitt fyrir framkvæmdir í fjöleignarhúsum á undanförnum tveimur árum?
Miðað við stefnu sjóðsins um að sinna ekki viðhaldi, líkt og viðmælandi lýsir, hvernig samræmist hún lögum um fjöleignarhús? Hvernig sinnir Íbúðalánasjóður þeim skyldum sem lýst er í lögunum?

Svör við þessum spurningum hafa ekki enn borist Austurglugganum/Austurfrétt formlega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.