Orkumálinn 2024

Reynslan úr skimuninni dýrmæt fyrir sýnatökur úr farþegum Norrænu

Yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) segir starfsfólk stofnunarinnar vera vel í stakk búið til að takast á við sýnatökur úr farþegum Norrænu í lok júní. Vinnan gæti þó hægt á annarri þjónustu stofnunarinnar þá daga sem ferjan er í höfn. Ekki er aðstaða til að greina sýnin eystra. Því þarf að koma þeim í áætlunarflug.


Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að skima alla þá sem koma til landsins í hið minnsta tvær vikur frá 15. júní. Verkefnisstjórn um útfærslu skimananna skilaði af sér skýrslu í byrjun vikunnar.

Umfang skimananna verður langmest á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að tekin verði allt að 1000 sýni á dag, þótt almennt sé miðað við um 500 sýni. Sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans, sem greinir sýnin, ræður í dag við að greina 700-800 sýni á dag. Aðeins á að taka sýni úr þeim sem fæddir eru árið 2004 og fyrr. Miðað við þessar forsendur gætu farþegar til landsins orðið allt að 30.000 á mánuði. Það er þó aðeins brot af því sem gerist í venjulegu árferði þegar 250-300 þúsund farþegar koma yfir sumarmánuðina og aldrei færri en 150 þúsund á mánuði.

Hópurinn þurfti þó einnig að horfa til annarra gátta inn í landið. Þar er að finna varaflugvellina í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. Ekkert áætlunarflug er um vellina nú en einhver umferð einkaflugvéla er um vellina hvert sumar.

Vellirnir gætu þó þurft að sinna kallinu ef einhverra hluta vegna er ekki hægt að lenda í Keflavík. Í umfjöllun verkefnisstjórnarinnar um þá segir að aðstöðuleysi á völlunum þýði að ekki sé raunhæft að taka sýni hjá komufarþegum nema í mjög litlu mæli, sérstaklega sé einnig þörf á landamæraeftirliti. Erfitt verði að framfylgja sóttvarnaaðgerðum, svo sem sýnatökum og viðhalda fjarlægð milli farþega sem þess óski.

Von á nokkur hundruð farþegum til Seyðisfjarðar

Næst stærsta gáttin á eftir Keflavík er hins vegar ferjuhöfnin á Seyðisfirði þangað sem Norræna kemur. Von er á henni 16. og 23. júní þar sem hún liggur í höfn yfir nótt. Ferjan hefur komið til landsins með farþega, um 20 í hverri ferð, síðan í lok apríl. Þann 16. júní er von á 200 farþegum og 350 farþegum viku síðar. Þá eru 622 farþegar skráðir með ferjunni þegar hún á að koma fimmtudaginn 1. júlí.

Í skýrslunni kemur fram að reynsla undanfarinna vikna sýni að töluvert sé um afbókanir áður en ferðir eru farnar. Líkur séu þó á að færri afbóki verði heimilt að sleppa við tveggja vikna sóttkví, eins og nú er krafist. Verkefnisstjórnin segir að ef bókanirnar gangi eftir sé viðbúið að gera þurfi sérstakar ráðstafanir því farþegafjöldinn reyni verulega á getu Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sem sæi um að taka sýni, og greiningargetu veirufræðideildar Landsspítalans, sem kannar þau.

Mikil þjálfun í sýnatöku

Pétur Heimisson, yfirlæknir HSA og umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi, segir að stofnunin sé almennt vel undir verkefnið búin. Dýrmæt reynsla hafi fengist í byrjun apríl þegar tekin voru sýni úr um 1500 Austfirðingum í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu. Þá sé unnið með skýrsluna innan aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands sem tryggi gott samstarf innan fjórðungs og við aðila utan hans, undir forustu sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra.

„HSA hefur á að skipa einvalaliði og margir starfsmenn hafa fengið mikla þjálfun í sýnatöku og öllu sem að því snýr. Gagnvart því mögulega verkefni að taka sýni úr farþegum Norrænu við komu skipsins í seinni hluta júní, þá byggjum við á reynslu frá frábæru samvinnuverkefni Íslenskrar Erfðagreiningar og HSA. Þá voru tekin nærri 1500 sýni á langri helgi fyrr í faraldrinum og gekk fádæma vel.

Þeir sem skipulögðu það verkefni fyrir hönd HSA eru þegar sestir yfir áætlaða aðkomu HSA að því að annast sýnatöku við komu Norrænu, með það að markmiði að móta tillögur að verkferlum um framkvæmd þess verkefnis, frá og með sýnatöku við komu skipsins til Seyðisfjarðar og til og með því að sýnin verði komin á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Varðandi flugvöllinn þá er umfangið þar mun minna en verður að sjálfsögðu skoðað líka.“

Sýni í áætlunarflug

Verkefnisstjórnin miðar við að um fimm tímar líði frá því að sýni er tekið úr farþegum í Keflavík uns niðurstaða liggur fyrir úr greiningu. Innifalið í því er akstur með sýnin til Reykjavíkur sem tekur klukkutíma.

Pétur segir að reynt verði að lágmarka þann tíma sem tekur að koma sýnunum suður til greiningar og í því skyni verði horft á hvernig tímasetning áætlunarflugs hentar gagnvart komutíma skipsins til hafnar.

Hópsmit hefði áhrif á starfsemi HSA

Skýrslu verkefnisstjórnarinnar fylgja minnisblöð frá bæði Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og Landsspítala um möguleg áhrif sýnatökunnar, og þess ef smit fara að greinast á landinu á ný, á starfsemi þeirra, en á þessum stöðum er hlúð að þeim sem veikjast mest. Í áhættumati SAk kemur fram að mönnun yfir sumartímann hafi áhrif á hvaða þjónustu hægt er að veita. Um leið og einstaklingur með Covid-19 þurfi að leggjast inn dragi trúlega úr annarri þjónustu.

Pétur segir að í áhættumati HSA komi fram að komi til smita eða hópsmits, þannig að takmarka þurfi hreyfingar starfsfólks bæði innan og á milli starfsstöðva, sé það mat stjórnenda að HSA þurfi að draga verulega úr venjulegri heilbrigðisþjónustu. Þá sé líklegt að sýnatökur á komudögum Norrænu hafi áhrif á aðra starfsemi HSA þá daga.

Bíða eftir fyrirmælum um farsóttarhús

Samkvæmt alþjóðareglum er ekki hægt að senda komufarþega með Covid-19 farþega til baka. Viðtökuland verður því að hlúa að þeim og tryggja einangrun þeirra eða sóttkví eftir föngum. Þegar faraldurinn kom upp í byrjun árs voru skilgreindar ákveðnar byggingar þar sem hægt væri að hýsa einstaklinga í sóttkví eða einangrun, svokölluð farsóttarhús.

Að fengnum tilmælum frá heilbrigðisráðherra samdi HSA við nokkra gististaði á Austurlandi um að taka að sér slíkt hlutverk, ef á þyrfti að halda. Þegar ekki voru lengur þekkt virk smit í fjórðungnum og erlendir ferðamenn nær horfnir í lok apríl, runnu samningarnir út. Pétur segir að í áhættumati HSA sé meðal annars bent á að nauðsynlegt sé að stofnunin fái skýr fyrirmæli um það hvort aftur þurfi að tryggja farsóttarhús á Austurlandi.

Á bæði Seyðisfirði og Eskifirði hefur verið tekið á móti fjölda skemmtiferðaskipa á hverju sumri. Í skýrslu verkefnisstjórnar kemur fram að engin skemmtiferðaskip séu væntanleg til landsins í júní. Því er ekki fjallað um ráðstafanir til að taka á móti þeim en tekið fram að útgerðir skipanna bíði ákvarðana stjórnvalda, bæði hér á landi og annars staðar, um ferðatakmarkanir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.