Reynt að hafa upp á fólki í smithættu

Starfsmenn Heilbrigðisstofnunnar Austurlands vinna hörðum höndum að því að hafa upp á þeim sem eru í hættu að hafa umgengist einstaklinga með smitandi mislinga. Mælst er til þess að þeir sem ekki hafa verið bólusettir láti bólusetja sig. Ekki verður tekið á móti börnum á starfsstöðvum stofnunarinnar á öskudaginn vegna þess ástands sem upp er komið.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem stofnunin birti á heimasíðu sinni í kvöld.

Föstudaginn 15. febrúar síðastliðinn kom einstaklingur með smitandi mislinga austur í Egilsstaði með flugvél Air Iceland Connect. Bæði farþegar og áhafnir vélanna voru eftir helgina upplýst um möguleikann á að þeir gætu hafa smitast af mislingum.

Í þessari viku hefur verið staðfest að fleiri einstaklingar sem voru um borð í þeirri vél hafi smitast. Í tilkynningunni segir að þeir hafi farið nokkuð víða innan Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs á þeim tíma sem þeir voru smitandi. Reynt er að ná sambandi við þá sem helst hafi orðið útsettir fyrir smiti.

Mælst er til þess að allir þeir sem ekki eru bólusettir og hafa aldrei fengið mislinga látið bólusetja sig. Hægt er að bólusetja börn frá sex mánaða aldri. Fólk er beðið um að hringja í síma 470-3081 vegna bólusetninga, en ekki koma beint á næstu heilsugæslustöð. 

Þeir sem telja sig finna til einkenna sem benda til mislinga, svo sem hita, kulda, roða í augu eða útbrota er eins ráðlagt að hringja í símanúmerið, ekki koma beint á heilsugæslustöðvar. Einnig má hafa samband í síma 1700, sem er samræmt þjónustunúmer fyrir allt landið. Einkennin geta komið fram allt til 22. mars.

Vegna ástandsins sem upp er komið geta stöðvar HSA ekki tekið á móti börnum í tilefni öskudags. Í niðurlagi tilkynningarinnar er beðist velvirðingar á því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.