Riðuafbrigði greint á bæ í Berufirði

Riðuafkvæmið Nor98 fannst nýverið í kind frá bænum Kelduskógum í Berufirði. Ekki er talin þörf á að skera niður fjárstofninn á bænum.


Þetta kemur fram í tilkynningu sem Matvælastofnun sendi frá sér í dag. Riðan kom fram við reglulega skimun.

Nor98 er kölluð afbrigðileg riða en rannsóknir benda til að hún smitist ekki á milli kinda eins og hefðbundin riða. Því er það álit MAST að ekki sé ástæða til að skera niður á bænum.

Vöktun vegna riðu á bænum og nágrannabæjum verður þó aukin.

Kelduskógar eru í Suðurfjarðahólfi, þar sem hefðbundin riða hefur greinst á sjö bæjum á undanförnum 20 árum frá 1996 til 2005. Í dag er sauðfé á fjórum þessara bæja.

Suðurfjarðahólf er því skilgreint sem sýkt svæði og verður það til 2025 ef ekki greinist þar hefðbundin riða á ný. Á sýktum svæðum er bannað að flytja kindur milli hjarða og full ástæða er til að minna bændur á að það bann gildir um alla bæi í hólfinu.

Síðast greindist Nor98 í kind sem kom í sláturhús haustið 2013 á bænum Krossi sem einnig er staðsettur í Berufirði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar