Ríflega 500 Austfirðingar bólusettir um helgina

Ríflega 500 Austfirðingar komu um helgina í bólusetningu gegn mislingum á heilsugæslustöðvunum á Egilsstöðum og Eskifirði. Áfram er bólusett og eru þeir sem aldrei verið bólusettir í forgangi.

„Þetta gekk mjög vel um helgina. Álagið dreifðist nokkuð jafnt og við vorum vel mönnuð,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA).

Seinn part föstudags var staðfest að manneskja á Egilsstöðum hefði greinst með mislinga og var hún sú fimmta á landinu. Í tilkynningu frá sóttvarnalækni kemur farm að alls hafi verið skoðuð um 50 sýni en ekki hafi komið fram fleiri staðfest tilfelli.

Áfram verður bólusett. Samkvæmt tilkynningu frá HSA verða á næstu dögum eingöngu bólusettir einstaklingar sem aldrei hafa fengið bólusetningu við mislingum og eru á aldrinum 6-18 mánaða, eða fæddir eftir árið 1970.

Bólusett verður í dag mánudag og morgun þriðjudag í skrifstofu framkvæmdastjórnar HSA að Lagarási 22 á Egilsstöðum og heilsugæslustöðinni Eskifirði frá 9-12 og 13-15.

Ekki þarf að panta tíma. Hins vegar falla tímar sem bókaðir hafa verið þá sem ekki falla undir forgangshópinn niður.

Von er á meira bóluefni til landsins um miðja vikuna. Til þessa hafa Austurland og höfuðborgarsvæðið verið í forgangi en unnið er að bólusetningaráætlun fyrir landið allt.

Frekari upplýsingar má finna á sérstökum vef landlæknis og á vef HSA. Eins eru upplýsingar á www.heilsuvera.is en þar geta einstaklingar flett upp bólusetningum sínum aftur til ársins 2002. Eins er sólarhringsvakt fyrir landið allt í síma 1700.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar