Rigningar sködduðu burðarlög í veginum í Fannardal

Endurvinna þarf hluta vegarins í Fannardal að hinum nýju Norðfjarðargöngum vegna skemmda á slitlagi. Talið er að rigningar á meðan unnið var við veginn í haust séu orsökin.

Íbúar á Norðfirði hafa verið efins um ástand nýja vegarins í Fannardal að Norðfjarðargöngum eftir að göngin voru opnuð fyrir þremur vikum.

Guðmundur Þór Björnsson, sem haft hefur eftirlit með gangagerðinni, segir að slitlagsskemmdir hafi komið í ljós á nokkrum stöðum, aðallega á um 1,5 km kafla innan við nýju brúna yfir Norðfjarðará.

„Á umræddum stöðum virtust burðarlög vatnsmettast og því ekki ná fullri þjöppun. Vegna þessa varð hreyfing á yfirborði burðarlags og klæðing brotnaði upp,“ segir Guðmundur.

„Ástæður þessa eru taldar vera fyrst og fremst aftaka úrhelli þegar og skömmu eftir að burðarlag var lagt út, en áður en lokið var við endanlega þjöppun þess. Með úrkomu og umferð hafi orðið aðskilnaður í burðarlaginu þannig að fínefnahluti þess myndaði þétt lag sem hindraði vatn á leið sinni út úr burðarlaginu.“

Hann áréttar að allar prófanir sem gerðar voru á burðarlagsefnum hafi gefið til kynna að efnin stæðust fyllilega þær kröfur sem til þeirra voru gerðar.

„Verktaki brást við þessu með því að fjarlægja það efni sem svo var ástatt fyrir og setja nýtt efni í staðinn. Vegna frosta náðist hins vegar ekki að endurleggja klæðingarlag á þau svæði sem gert var við. Það má því búast við að endurvinna þurfi umrædd svæði að einhverju leyti þegar tíðarfar leyfir að klæðing verði gerleg.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.