Risastór frístundabyggð gæti risið kringum Eiðavatn

Landeigendur að Eiðum hafa sótt um leyfi til að afmarka 160 lóðir i landi sínu undir frístundahús fyrir ferðafólk. Sveitarstjórn Múlaþings tekur vel í hugmyndina.

Eitt og hálft ár er nú síðan Eiðar fengu loks nýja eigendur þegar þeir Kristmann Pálmason og Einar Ben Þorsteinsson festu kaup á eignum gamla skólans og stórri landspildu þar í kring. Mörg ár þar á undan hafði þessi merki staður verið í niðurníðslu en þeir félagar vildu hefja hann aftur til virðingar. Töluvert starf hefur verið unnið síðan og þar ekki síst í endurbótum á húsnæðinu sem þar er til staðar.

Nú þegar útlit er fyrir að lögð verði hitaveita til Eiða innan ekki langs tíma hafa eigendurnir séð tækifæri í að afmarka um 160 lóðir undir frístundabyggð og þær lóðir margar á fallegum stöðum kringum Eiðavatnið og alveg niður að Lagarfljóti eins og sést á meðfylgjandi mynd (gullitaða svæðið). Alls er svæðið 204 hektarar og hver lóð því um hálfur hektari að stærð eða svo. Á svæðinu hefur lengi verið 17 húsa frístundabyggð á vegum BSRB og skammt frá stendur líka Kirkjumiðstöðin rétt fyrir ofan vatnið.

Aðspurður segir Einar Ben Þorsteinsson að um langtímaverkefni sé að ræða:

„Það er óvíst hvort þetta verður allt að veruleika og þarna rísa hús á öllum lóðum. En það má hugsa þetta sem svo að ef það seljast nokkrar lóðir árlega þá gæti þarna verið risin góð byggð á næstu áratugum. Þarna horfum við á nútímalega frístundabyggð með öllum þægindum annars vegar og svo hugsanlega hins vegar selja lóðir einar og sér. Öllu skiptir að gera þetta í samræmi við skipulag á svæðinu og byggð fari vel í umhverfinu.“

Sveitarstjórn Múlaþings hefur tekið vel í áform eigendanna og til stendur að leggja fram tillögu um breytingu á aðalskipulagi auk þess að gera nýtt deiliskipulag til að gefa hugmyndinni brautargengi. Í dag er þetta svæði formlega skilgreint til útiveru og náttúruskoðunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar