Risavaxinn loftbelgur blasti við Austfirðingum

Loftbelgur, notaður til rannsókna á himingeimnum blasti við Austfirðingum í gærkvöldi. Belgurinn er á stærð við íþróttavöll og getur borið á fjórða tonn.

Loftbelgurinn er hluti af stóru alþjóðlegu rannsóknaverkefni sem gert er út í sumar frá Kiruna í norðurhluta Svíþjóðar. Belgurinn sem Austfirðingar sáu í gærkvöldi kallast Sunrise-III. Hann var sendur á loft frá Kiruna um klukkan 16:22 að íslenskum tíma eða 18:22 að staðartíma í fyrradag.

Belgurinn sást víða af Austurlandi frá því um klukkan níu í gærkvöldi og fram yfir miðnætti. Hann svífur í 123.000 feta eða um 37 km hæð. Austfirðingar ráku margir upp stór augu enda endurkastaði hvítur belgurinn kvöldsólinni og var því áberandi á himingeiminum. Íbúahópar fylltust af myndum af fyrirbærinu á himni og vangaveltum um hvað væri á ferðinni.

Á vef Bandarísku geimrannsóknastofnunarinnar NASA og Max Planck stofnunarinnar í Þýskalandi er hægt að lesa nánar um verkefnið og fylgjast með ferli belgsins. Þær standa að rannsóknunum ásamt rannsóknastofnunum í Japan og Spáni. Þær stóðu áður fyrir rannsóknum, sem eru hluti af sama verkefni, árin 2009 og hafa alið að sér yfir 100 vísindagreinar.

Belgurinn sem nú er á lofti átti upphaflega að fara í loftið sumarið 2022 en þá kom upp bilun. Honum er nú ætlað að fljúga til Kanada. Í nótt flauga hann yfir Ísland til vesturs og var í morgun kominn vestur fyrir Látrabjarg.

Miðað við þann feril kom belgurinn upp að landinu á Víknaslóðum, sveif þaðan norðvestur fyrir Vopnafjörð en beygði þaðan til suðvesturs í boga yfir landið yfir öræfin, Hofsjökul og Langjökul áður en hann sveif út yfir Snæfellsnes.

Í lýsingu NASA kemur fram að loftbelgurinn sé á stærð við íþróttaleikvang og geti borið rúmlega 3,6 af farmi. Það nýtist undir rannsóknatækni frá bæði stofnuninni og háskólum víða um heim. Búnaðurinn í Sunrise-III er ætlaður til að taka myndir af sólinni í hárri upplausn. Þær nýtast meðal annars til að mæla segulsvið hennar, hitastig og veltihraða.

Sunrise-III er hluti af stærra verkefni sem NASA stendur fyrir í norðanverði Svíþjóð en loftbelgirnir verða alls fjórir að tölu. Sá fyrsti fór í loftið í lok maí og lenti viku síðar í Kanada. Sá næstu var sendur í loftið á þriðjudag, daginn á undan Sunrise-III en flaug norður fyrir Ísland og þvert yfir Grænland.

Í umfjöllun NASA segir að aðstæður á norðurslóðum, þar sem sólin sest ekki á sumrin, henti sérstaklega vel fyrir flug loftbelgjanna því þrýstingsbreytingar sem fylgi hitabreytingum milli dags og nætur geta annars skapað vandræði. Mest um vert er þó óhindrað útsýni til sólarinnar í nokkra daga.

Fjórði og síðasti loftbelgurinn í verkefninu er nú tilbúinn til flugs og ætti því ekki að koma á óvart þótt hann sæist víða af landinu ef áfram verður heiðskýrt.
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar