„Ristilspeglunin reyndist alger lottóvinningur“

Ristilspeglun sem starfsfólki Síldarvinnslunar er boðið upp á hefur nú þegar skilað árangri og líklega komið í veg fyrir krabbameinstilfelli.



Eins og Austurfrétt greindi frá fyrir rúmu ári gerði Síldarvinnslan samning við Heilbrigðisstofnun Austurlands í janúar 2014 þess efnis að að þeir starfsmenn fyrirtækisins sem náð hafa 50 ára aldri gefist kostur á ristilspeglun á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað þeim að kostnaðarlausu, en fréttina má lesa hér.

Nú er ristilspeglunarátak Síldarvinnslunnar nú um það bil hálfnað og gert ráð fyrir að því ljúki um næstu áramót.

Nú er búið að spegla um 45 einstaklinga úr starfsmannahópnum þannig að segja má að verkefnið sé hálfnað. Gert er ráð fyrir að verkefninu muni ljúka um næstu áramót,“ sagði Jón Sen, yfirlæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu.

„Það hefur verið ánægjulegt að sinna þessu verkefni með starfsmönnum Síldarvinnslunnar. Starfsfólkið hefur verið afar jákvætt og þegið speglunina með þökkum. Sárafáir hafa afþakkað. Og hafa verður í huga að verkefnið hefur skilað árangri. Búið er að fjarlægja mikinn fjölda svonefndra sepa úr ristlum starfsmanna, en separnir geta verið forstig krabbameins,“ segir Jón.


Speglunin veitti mér nýtt tækifæri í lífinu“

Egill Birkir Stefánsson, starfsmaður við löndun á uppsjávarfiski, var kallaður í speglun í mars.

„Það hafði aldrei hvarflað að mér að fara í ristilspeglun, slíkt var fjarri mér. En þegar ég var boðaður í speglun sem starfsmaður Síldarvinnslunnar ákvað ég að láta verða af því og ég mun aldrei sjá eftir þeirri ákvörðun. Tveir separ voru fjarlægðir úr ristlinum, annar þeirra var svo stór að hann hefði að öllum líkindum þróast yfir í illkynja æxli eða krabbamein með tímanum.

Ristilspeglunin reyndist því alger lottóvinningur fyrir mig og ég er ótrúlega þakklátur fyrirtækinu að það skuli bjóða okkur starfsmönnunum upp á svona rannsókn. Í fyrsta lagi er þetta ekkert mál og í öðru lagi verða menn að hafa í huga hvað getur komið út úr þessu. Fyrir mig reyndist þetta vera spurning um heilsufar til langs tíma og jafnvel spurning um líf eða dauða. Speglunin veitti mér nýtt tækifæri í lífinu og ég verð ávallt þakklátur fyrir það,“ sagði Egill Birkir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.