Ráðning bæjarstjóra: Sorglegasta niðurstaðan sem hægt er að hugsa sér
Fulltrúar Fjarðalistans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar segja það að hafna öllum umsækjendunum um straf bæjarstjóra þá sorglegustu sem hægt hafi verið að hugsa sér. Páll Björgvin Guðmundsson, sem verður næsti bæjarstjóri, var ekki meðal þeirra átján sem sóttu um starfið miðað við lista sem gefinn var út í seinustu viku. Þeim umsækjendum var öllum hafnað. Fulltrúarnir vilja að ráðningarsamningur nýs bæjarstjóra verði gerður opinber.
"Okkur, bæjarfulltrúum Fjarðalistans, þykir afar dapurt að öllum umsóknum um starf bæjarstjóra í Fjarðabyggð hafi verið hafnað. Niðurstaðan sem nú er komin í málið er að okkar mati sú sorglegasta sem hægt er að hugsa sér, þ.e. að þegar auglýst hefur verið í eins mikilvægt embætti og starf bæjarstjóra er, er öllum hafnað," segir í yfirlýsingu sem fulltrúarnir Elvar Jónsson, Eydís Ásbjörnsdóttir og Esther Ösp Gunnarsdóttir birta á vef Fjarðalistans í dag .
Á fundi sínum í gær fól bæjarstjórnin bæjarráði að ganga til viðræðna og samninga við Pál Björgvin um að taka við starfi bæjarstjóra Fjarðabyggðar til næstu fjögurra ára. Það samþykktu allir bæjarfulltrúarnir níu.
Á fundinum var tekin fyrir fundargerð bæjarráðs númer 204. Þar er bókað að ekki hafi náðst full samstaða um neinn umsækjendanna átján. Bæjarráð leggi því til við bæjarstjórnina að hún feli bæjarráði að leita að umsækjenda sem full samstaða geti skapast um. Fundargerðin er ekki komin á vef Fjarðabyggðar en samkvæmt heimildum Agl.is var fundurinn haldinn fyrr í gær og ekki önnur mál tekin fyrir. Á þriðjudag var bæjarráðsfundi frestað. Bæjarráðsmennirnir Jens Garðar Helgason, Jón Björn Hákonarson og Elvar Jónsson kvitta undir bókunina.
Fulltrúar Fjarðalistans lögðu á bæjarstjórnarfundinum fram bókun um að nokkrir af umsækjendunum hafi fallið vel að stefnu listans, sem hafi veri að leita bæjarstjóra á heimaslóðum, meðal annars allir þeir sem boðaðir voru í viðtöl hjá bæjarráði. "Þar sem stór þáttur í okkar stefnu er að þverpólitísk sátt verði um nýjan bæjarstjóra og hún hefur ekki náðst, styðjum við það að öllum umsækjendum sé hafnað og ráðningunni vísað til bæjarráðs í trausti þess að þar verði samið við aðila sem full sátt er um í bæjarstjórn."
Í bókuninni er því einnig lýst að ráðningarsamningur bæjarstjórans verði opinber, hann einfaldur, gagnsær og byggist fyrst og fremst á grunnlaunum og fastri yfirvinnu með biðlaunarétti í þrjá mánuði eins í stað sex, eins og víða hafi tíðkast.