Öruggast fyrir austan
Líkamsmeiðingar eru fátíðastar í umdæmi sýslumannsins á Seyðisfirði og umdæmi sýslumannsins á Eskifirði er það þriðja öruggasta.
Þetta kemur fram í úttekt DV. Miðað er við tölur frá árinu 2008. Það ár voru fimmtán líkamsárásir tilkynntar í Seyðisfjarðarumdæminu en 23 í Eskifjarðarumdæmi. Flestar árásir voru tilkynntar í Vestmannaeyjum, 82.
Blaðið hefur eftir Arnbjörgu Sveinsdóttur, forseta bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar, að Seyðfirðingar séu „rólegir, umburðarlyndir og almennt þægilegt fólk.“
Hún gagnrýnir samt að lögreglan sé ekki með neitt aðsetur í bænum heldur þurfi að koma frá Egilsstöðum.
„Fólk getur lent í vandræðum og þá getur verið erfitt að fá aðstoð lögreglu. Fjarðarheiði hefur stundum orðið ófær, og þá gengur erfiðlega fyrir lögregluna að komast til bæjarins.“