Rúmar 11 milljónir í verkefni á Austurlandi

Minjastofnun úthlutaði nýverið viðbótarframlögum úr húsafriðunarsjóði en hluti af viðbrögðum stjórnvalda vegna efnhagssamdráttar í kjölfar Covid-19 var að veita 100 milljónum aukalega í sjóðinn. Alls hlutu 36 verkefni styrk að þessu sinni, þar af 5 á Austurlandi.

Í tilkynningu Minjastofnunar kemur fram að í ljósi aðstæðna hafi ekki þótt raunhæft að opna fyrir umsóknir um ný verkefni, heldur var ákveðið að líta til þeirra verkefna sem sótt var um styrki til á síðasta umsóknartímabili og mat hafði verið lagt á. Litið var sérstaklega til verkefna sem ráðast má í strax og ljúka á þessu sumri, með vísan til þess að nýta skyldi viðbótarféð í atvinnuskapandi verkefni á svæðum sem verða fyrir hvað mestum efnahagslegum þrenginum vegna Covid 19. Flestir styrkirnir eru hækkun á áður veittum styrk, en fjórir styrkjanna eru til verkefna sem ekki var unnt að styrkja í fyrri úthlutun úr sjóðnum, en voru engu að síður talin verðug verkefni.

 

Rúmar 11 milljónir austur
Af þeim 60 milljónum sem úthlutað var renna 11,4 milljónir til verkefna á Austurlandi og skiptast þær þannig.

Bakkaeyri á Borgarfirði eystri 3 milljónir
Gamla Skipasmíðastöðin á Seyðisfirði 2,9 milljónir
Gamla Lúðvíkshúsið í Neskaupstað 2 milljónir
Lindarbakki í Breiðdal 2 milljónir
Gamla kirkjan á Djúpavogi 1,5 milljónir

Til viðbótar þeim fjármunum sem úthlutað var til einstakra verkefna var 40 milljónum veitt beint í Húsasafn Þjóðminjasafns Íslands. Reikna má með því að eitthvað af þeim fjármunum nýtist hér eystra en í Húsasafninu eru meðal annars torfbæirnir á Bustarfelli í Vopnafirði og Galtastöðum fram í Hróarstungu, auk Sómastaðahússins í Reyðarfirði og gamla íbúðarhússins á Teigarhorni í Berufirði.

Mynd: Gamla Lúðvíkshúsið í Neskaupstað var flutt á nýjan stað í fyrra

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.