Rýmingin stendur fram yfir hádegi

Rýming vegna hættu á snjóflóðum úr Strandartindi við sunnanverðan Seyðisfjörð verður í gildi fram yfir hádegi en byggingar á tveimur reitum þar voru rýmdar í gærkvöldi. Áframhaldið verður metið í samráði við Veðurstofuna.

Í gær féllu svokölluð vot flóð úr tindinum og eitt þeirra fór yfir veginn sem liggur út með firðingum. Hláka er á svæðinu og í gærkvöldi var spáð talsverðri rigningu.

Í ljósi þeirra aðstæðna var ákveðið að rýma reit 4 og 6 undir tindinum en á honum standa iðnaðarhús og verbúð.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi bætti í rigninguna í morgun og verður ákvörðunin um rýminguna ekki endurskoðuð fyrr en eftir hádegi. Ekki er þó vitað til þess að fleiri flóð hafi fallið á svæðinu.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að flóð hafi fallið í Norðfirði undanfarna daga, úr Bræðslugjám á sunnudag og í Hólmgerðarfjalli við Oddsskarð í gærmorgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar