Slakað á takmörkunum samkomubanns
Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands minni íbúa á að viðhalda tveggja metra samskiptafjarlægð sín á milli eftir sem kostur er. Slíkt á að vera skylda þar sem lögbundin þjónusta er veitt.Í tilkynningu aðgerðastjórnar í dag er farið yfir ýmis atriði í tilslökunum á samkomubanni sem tóku gildi í gær.
Stærsta breytingin er sú að nú mega 200 manns koma saman í stað 50 áður. Þá eru heldur engar takmarkanir á íþróttastarfi nema að ekki mega fleiri en 200 fullorðnir koma saman í einu rými.
Líkamsræktarstöðvar eru opnar á ný en sundstaðir opnuðu fyrri viku. Fjöldi gesta þar má ekki vera meiri en sem nemur helmingi þess fjölda sem staðirnir hafa leyfi fyrir. Börn fædd árið 2015 og síðar telja þó ekki með.
Minnt er á tveggja metra regluna. Unnt á að vera að tryggja þeim sem kjósa að halda fjarlægðina það þar sem lögbundin þjónusta er veitt eða almenningur á ekki kost á öðru en mæta. Breytingar á reglunum má lesa í heild sinni á vef Stjórnarráðsins.
Engin ný smit hafa greinst á Austurlandi frá 9. apríl. Enginn er í einangrun. Samkvæmt tölum á Covid.is eru 26 einstaklingar í sóttkví á Austurlandi.