Sækettirnir sönnuðu sig í dag

Fjórir sækettir frá austfirskum björgunarsveitum þykja hafa reynst afar vel við umfangsmikla leit að skipverja sem féll frá borði af skipi sem kom til Vopnafjarðar í gærmorgun. Tækin eru hin einu sinnar tegundar hérlendis.

„Mér finnst þetta ótrúlega góð verkfæri að öllu leyti,“ segir Ragnar Steinarsson, úr björgunarsveitinni Geisla á Fáskrúðsfirði. Hann er einn fjögurra sem setið hafa sækettina við leitina í dag.

Sækettirnir eru sænsk uppfinning og kallast á ensku Rescue runner. Það sem skilur þá helst frá venjulegum sæköttum er að þeir eru úr mjúku en ekki hörðu plasti. „Þess vegna er maður ekki smeykur við að fara upp í grjót á þeim,“ útskýrir Ragnar.

Sækettirnir eru með þotudrifi, það er skrúfa byggð inn í tækið tekur upp vatn og spýtir því aftur úr af miklum krafti til að drífa það áfram. Engin skrúfa stendur niður úr sækettinum þannig að hann ristir djúpt. Aftan á er lok sem sá sem situr tækið getur opnað og teygt sig niður í þurfi að hreinsa þara úr drifinu.

„Við höfum allir þurft að stoppa til að hreinsa, það fylgir því að þvælst upp í fjöru. Sækettirnir hafa reynst vel til að þræða upp í fjöru þar sem eru litlar, þröngar víkur. Maður getur farið alla leiðina upp. Eins í kringum steina og sker. Að mörgu leyti er þetta betra en slöngubátarnir, því það er engin blaðra sem getur sprungið eða skrúfa rekist niður. Helsti gallinn er það geta bara tveir setið á tækinu.“

Fyrsti sækötturinn kom til Geisla og var seldur áfram til björgunarsveitarinnar Báru á Djúpavogi. Fáskrúðsfirðingar keyptu tvo nýrri í staðinn auk þess sem björgunarsveitin Eining í Breiðdal eignaðist einn. Allir fjórir voru nýttir við leitina í dag.

Sækettirnir hafa verið nýttir við ýmis verkefni björgunarsveitanna, til dæmis leggja út mengunarpylsur við mengunarslys, gæslu í Urriðavatnssundi auk þess sem Geislamenn drógu hval sem hafði rekið upp í fjöru, en aðrir bátar komust ekki að þar vegna sands.

Leitin í dag er hins vegar stærsta og trúlega mest krefjandi verkefni sem tækin hafa verið nýtt við. Margir voru því forvitnir þegar þau voru sjósett í morgun. Ragnar telur að sækettirnir hafi sannarlega sannað gildi sitt í dag.

„Ég hugsa að fleiri eigi eftir að kaupa svona tæki. Þeir ganga rúmar 40 sjómílur (yfir 70 km/klst) sem er bærilegur hraði. Þeir eru frábærir í að leita og þræða fjörurnar og við höfum náð að leita stórt svæði á þeim á stuttum tíma.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar