Orkumálinn 2024

Sagan af brauðinu dýra (eða ófáanlega)

„Þeir börðust, þeir börðust um brauðið og grautinn, því brauð og grautur er mannanna fæða.“ Svo orti Steinn Steinarr á sinni tíð, en þetta þykir einhverjum lýsa orðið aðstæðum á Egilsstöðum vel, því þar hafa íbúar látið vel í sér heyra á samfélagsmiðlum að undanförnu vegna skorts á brauðmeti í hillum matvöruverslana. Umræðan er þó langt því frá ný af nálinni.

Undanfarna daga og vikur hefur verið margt um manninn á Héraði enda streymir ferðafólk, bæði íslenskt og erlent, um svæðið og nýtur veðursins sem hefur verið með ágætum. Þó að flestir fagni því að fá gesti í bæinn og þeim umsvifum sem því fylgja, þá hefur þess orðið vart að þessi mikli straumur ferðafólks skerði þjónustu- og vöruframboð fyrir heimafólk og að þeir sem hafi aðstöðu til að bregðast við því, svo sem verslanir, geri ekkert í málunum.

Sigrún Blöndal, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, setti í gærdag inn á Facebook-síðu sína mynd úr verslun Nettó á Egilsstöðum sem sýnir galtóma brauðhillu og veltir því upp hvort ekki mætti við innkaup í verslanir taka mið af veðurspá og panta ríflega inn um hásumarið. Fjörlegar umræður sköpuðust á þessum vettvangi og fljótlega var einnig komin inn mynd sem sýndi svipað ástand í verslun Bónus á staðnum. Þó einhverjir hafi bent á að hvort sem er sé betra að kaupa brauð beint úr bakaríum eða baka heima virtust þó flestir þeirrar skoðunar að við þetta ástand væri illa unandi.


Fá verslunarstjórar að ráða?
Ljóst er að ekki er um nýtt vandamál að ræða, heldur hefur það þekkst um árabil. Þannig kannast flestir íbúar við að lítið þýði að leita að tilteknum vörum á fimmtudögum yfir sumarið, þegar ferjan Norræna kemur til landsins. Þá sé erlent ferðafólk búið að tæma hillur verslana tiltölulega snemma dagsins. Einnig hefur þetta viljað brenna við á góðviðrishelgum þegar margt hefur verið um manninn á tjaldsvæðum á Héraði. Það sem kannski kemur íbúum á óvart nú er að upplifa þetta ástand marga daga í röð, einkum í ljósi þess að ekki var endilega búist við mikilli umferð ferðafólks vegna Covid-19. Því sé mælir heimafólksins kannski fyllri en ella.

Það er athyglisvert að í umræðunni nú kemur ítrekað fram að starfsfólki verslana svæðisins sé vorkun, því að sannarlega reyni þau að panta inn meira magn fyrir þá daga sem mikil umferð um svæðið er fyrirséð. Í einhverjum tilfellum neiti einfaldlega birgjar eða lagerstjórnendur verslanakeðjanna að senda meira af tilteknum vörum því þeir taki ekki mark á því að svo mikil sala geti verið tiltekna daga sem starfsfólk verslana hér heldur fram. Og jafnvel að það beri á því að þó pöntuð séu 100 stykki af tiltekinni vöru komi bara 50 án skýringa.


Ábyrgð stórverslana mikil
Líkt og víðast hvar um landið eru matvöruverslanir á Egilsstöðum í eigu stórra verslanakeðja og ákvarðanir um rekstur þeirra því teknar annarsstaðar. Í umræðum um þetta mál hefur borið á góma að þetta sé hluti af vandamálinu. Kvartanir íbúa komist ekki til þeirra sem hafi vald til að bæta ástandið. Eins hefur verið á það bent að þetta komi ekki bara niður á íbúum heldur líka ferðafólki sem upplifir skerta þjónustu og hefur fyrir vikið neikvæða ímynd af svæðinu eftir heimsókn sína.

Sigrún veltir því upp á síðu sinni hvort ekki sá ástæða til að reyna að ná eyrum þeirra sem ráða ferðinni og varpar því meðal annars fram hvort ekki sé rétt að „...Íbúar taki sig saman og safni undirskriftum þar sem skorað verði á stórverslanir á svæðinu að taka meira tillit til aukins ferðamannastraums og styðji verslunartjóra í að kaupa nægilega inn!“

En síðan er spurning hvort íbúar geti sameinast um aðra tillögu sem fram kom í umræðinni. Að „...drekka bjór í staðinn, hef ekki séð að vanti mikið í hillurnar þar.“ Í því ljósi má kannski reikna með að krafan um áfengi í matvöruverslanir snúist upp í andhverfu sína á Héraði og verði þess í stað krafa um að fá matvöru inn í áfengisverslunina, því þar virðist verslunarstjóri kunna, og hafa heimild til, að kaupa almennilega inn fyrir álagstíma.

 

Það var eyðilegt um að litast í brauðhillunni í Nettó í gær en ástandið þó ekkert einsdæmi. Mynd: Aðsend/SBl

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.