Samkeppniseftirlitið staðfestir sölu Rafveitu Reyðarfjarðar
Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að aðhafast ekki í kaupum Orkusölunnar og Rarik á Rafveitu Reyðarfjarðar. Niðurstaða eftirlitsins er að markaðsráðandi staða hvorki verði til né styrkist við viðskiptin.Bæjarstjórn Fjarðabyggðar ákvað í desember að selja annars vegar söluhluta Rafveitunnar til Orkusölunnar, hins vegar dreifveituna til Rarik. Viðskiptin voru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins sem liggur nú fyrir.
Upphaflega var eingöngu salan til Orkusölunnar tilkynnt en Samkeppniseftirlitið var ekki sammála því og fór fram á skýringar hvers vegna salan á dreifveitunni hefði ekki einnig verið tilkynnt, sem var þá gert.
Niðurstaða eftirlitsins er að aðhafast ekki í viðskiptunum þar sem viðskiptin leiði ekki til þess að markaðsráðandi staða verði til, styrkist eða samkeppni verði raskað að svo miklu leyti að það réttlæti inngrip.
Í álitinu kemur fram að Orkusalan og Rarik séu með 30-35% af sínum markaði en Rafveitan aðeins um 0-5% enda hefur hún aðeins þjónað Reyðarfirði. Samkeppniseftirlitið álítur hins vegar að landfræðilegur markaður hérlendis sé landið allt.
Við vinnu sína óskaði eftirlitið eftir viðbrögðum annarra íslenskra raforkufyrirtækja við sölunni til Orkusölunnar. Í umsögn Íslenskrar orkumiðlunar, sem sýndi áhuga á að gera tilboð í Rafveitunnar, segir að með viðskiptunum sé verið að ýta enn frekar undir markaðsráðandi stöðu Orkusölunnar.
Aðrir seljendur raforku taka ekki undir það en telja söluferlið annmörkum háð þar sem bæjarstjórn óskaði ekki eftir tilboðum frá öðrum fyrirtækjum. Bæjarfulltrúar hafa skýrt þá ákvörðun með að í upphafi ferlisins hafi verið samstaða um að selja Rafveituna til aðila í opinberri eigu.