„Sauðfjárbændur sjá ekki fyrir sér framtíðina í unaðsljóma“

„Almennt heyrist mér bændur vera uggandi um sinn hag. Þeir sjá ekki fyrir sér framtíðina í unaðsljóma. Þeir vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi sinn búskap“, segir Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti í Fljótsdal varðandi horfur í sauðfjárrækt og stöðu sauðfjárbænda.

 

Sauðfjárrækt mikilvæg forsenda búsetu í dreifbýli

Í síðustu viku lýsti Sveitastjórn Fljótsdalshrepps yfir þungum áhyggjum vegna þeirra stöðu sem upp er komin í sauðfjárrækt en fyrir liggur að veruleg lækkun verði á afurðaverði til sauðfjárbænda.

Af því leiðir gríðarlegt tekjutap fyrir sauðfjárbændur og skapast getur forsendabrestur fyrir áframhaldandi búrekstri sökum þess.

„Sauðfjárrækt er grunnstoð atvinnulífs og búsetu í Fljótsdalshreppi og er, eins og víða á landinu, mikilvægasta forsenda búsetu í dreifbýli. Grafalvarleg staða getur því myndast í byggðarþróun á Íslandi verði ekki brugðist við alvarlegri stöðu sauðfjárbænda“, segir Gunnþórunn.

Hugmyndir um eyðibýlastefnu réttmæt

„Við óttumst afleiðingar tillagna ráðherra, eins og þeir hafa verið birtar, vegna þess að það vantar byggðatengdar aðgerðir til að að verja dreifðari byggðir. Það eru sér í lagi yngri bændur sem að óttast að geta ekki búið við sauðfjárrækt eins og þeir sjá það fyrir sér. Þeir sem hafa verið lengur í búskap eru frekar rólegri “ segir Gunnþórunn.

Ráðherra hefur verið gagnrýndur fyrir „eyðibýlastefnu“ og tekur Gunnþórunn undir þá umræðu.

„Um leið og þetta tilboð er þegið og búskapur hættir í einhver ár er komin kvöð á þessar jarðir sem kemur þar af leiðandi í veg fyrir kynslóðarskipti. Það tekur jarðirnar úr sambandi í sauðfjárrækt.“

Hefur gríðarleg áhrif í hreppnum

Í ályktuninni lýsir sveitarstjórn því hún vilji skoða hvernig hreppurinn geti komið að málunum og unnið gegn neikvæðum áhrifum á grunnatvinnugrein sveitarfélagsins. Sú vinna er þó ekki enn hafin.

„Bændurnir eru stoð undir fastri búsetu og eru okkar útsvarsgreiðendur að stórum hluta. Það eru ýmsir þættir sem lúta að sveitarfélaginu sem að koma að þessum málum.

Hvernig eiga menn að lifa við minnkandi tekjur? Hvaða aðra möguleika hafa bændur til að sitja áfram á jörðunum þegar þeir þurfa að sækja aðrar vinnur? Hér eru búin í raun ekki svo stór og annar aðilinn vinnur gjarnan með búinu. Þessar tillögur hafa því gríðarleg áhrif á búin hér í hreppnum“, segir Gunnþórunn.

Hætta á alvarlegri byggðaröskun

Fljótsdælingar eru ekki þeir einu sem að undanförnu hafa ályktað um vanda sauðfjárbænda. Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð voru fyrst til þess en í síðustu viku sendu Seyðisfjarðarkaupstaður og Samband sveitarfélaga á Austurlandi sambærilegar ályktanir.

Í bókun atvinnu- og framtíðarmálanefndar Seyðisfjarðar er skorað á stjórnvöld að bregðast við þar sem mikil hætta sé á alvarlegri byggðaröskun sem kæmi þungt niður á samfélögum til sveita og þeim sveitarfélögum sem byggja að miklu leyti á landbúnaði.

Í ályktun SSA eru stjórnvöld hvött til að bregðast við hið fyrsta og lýst yfir þungum áhyggjum af stöðunni og framtíð búsetu í dreifbýli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.