Sauðfjárbændur með aðalfund og uppskeruhátíð

Félag sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum, hélt aðalfund sinn og uppskeruhátíð í Fjarðarborg á Borgarfirði eystri síðasta föstudag.

adalfundur_saudfjarbaenda1.jpgÁ aðalfundinum var farið yfir starfsemi félagsins síðasta ár, formaður félagsins Sigvaldi H. Ragnarsson á Hákonarstöðum flutti skýrslu stjórnar og Magnús Sigurðsson á Víkingsstöðum fór yfir reikninga félagsins.  Starfsmi félagsins var með hefðbundnu sniði og afkoma ágæt.

Gestur fundarins Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda flutti erindi.  Þar kom fram að útlið í afsetningu sauðfjárafurða og söluhorfur hafa ekki verið svo góðar sem nú er í langan tíma.  Munar þar mestu mikil aukning á útflutningi kinda og dilkakjöts og gott verð á mörkuðum erlendis sem að vísu ræðst mest af lágu gengi krónunnar. Mest er flutt út til Bretlands.  Birgðastaðan hefur ekki verið svo góð áður og er útit fyrir að sumir hlutar skrokksins seljist upp áður en haustslátrun hefst.  Samt er ekki útlit fyrir kjötþurrð að sögn Sigurðar.adalfundur_saudfjarbaenda2.jpg

Sjö ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum sem verða sendar til aðalfundar Landssamtaka suðfjárbænda sem verður haldinn í apríl. Sigvald H. Ragnarsson formaður félagsins var endurkjörinn í stjórn félagsins en Magnús Sigurðsson hafði lokið sex ára stjórnarsetu sinni og var Guðni Þórðarson bóndi á Lynghól kjörinn í hans stað.  Aðrir í stjórn félagsins eru Guðrún Agnarsdóttir í Hofteigi, Margrét Benediktsdóttir Hjarðar Borg í Njarðvík og Helgi Haukur Hauksson á Straumi. Í varastjórn situr Hörður Guðmundsson í Refsmýri.

adalfundur_saudfjarbaenda3.jpgEftir aðalfundinn var kvöldverður, lambakjötsveisla í boði Norðlenska og Sláturfélags Vopnafjarðar. Á uppskeruhátíð félagsins yfir kvöldverðinum voru veittar viðurkenningar fyrir annarvegar hæst stigaða hrútlamb síðasta hausts á félagssvæðinu og hins vegar þrjár hæst  metnu kynbótaærnar í árgangi 2005 á starfssvæði félagsins.  Hæst stigaða lambhrútinn sem var númer 359, áttu Jóhann F. Þórhallsson og Sigrún Ólafsdóttur í Brekkugerði í Fljótsdal með 87,8 stig. Hæst metnu ána Bugðu, áttu hins vegar Ásgeir Arngrímsson og Jóhanna Borgfjörð í Brekkubæ á Borgarfirði eystri með samanlagt 354.2 stig í kynbótamat.

Eftir borðhald skemmtu borgfirðingar fundargestum eins og þeim er einum lagið, með  landafræðikennslu sem fléttaðist inn í frásagnir af smalmennskum, afmælisveslum bænda á Borgarfirði þegar þeir verða 56 ára en það mun vera ár dýrsins í aldri manna niður þar. Síðan fór Andrés á Gilsárvelli á kostum í kveðskap sem hann flutti, meðal annars af ólimpíuleikum samkynhneigðra.

Þrjú stigahæstu hrútlömbin á starfssvæði Félags sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum voru þessi:


1. nr. 359 hjá Jóhanni F. Þórhallssyni og Sigrúnu Ólafsdóttur í Brekkugerði í Fljótsdal með 87,8 stig.
Haus 8- Háls og herðar 9 - Bringa og útlögur 9 - Bak 9,5 - Malir 9 - Læri 18 - Ull 8 - Fætur 8 - Samræmi 9
Mældar stærðir voru 37 mm bakvöðvi, 2,8 mm fita á baki, 5 fyrir lögun bakvöðva, 115 mm leggur og hann var 54 kg.
Þessi hrútur er fæddur úr sæðingum og er undan Hrifloni frá Hriflu. Þessi hrútur var hyrntur en drapst því miður í haust.  

2. nr. 618A hjá Eyjólfi Ingvasyni og Þórdísi Sveinsdóttur á Melum í Fljótsdal með 87,5 stig.
Haus 8 - Háls og herðar 9 - Bringa og útlögur 9,5 - Bak 9 - Malir 9,5 - Læri 18 - Ull 8 - Fætur 8 - Samræmi 8
Mældar stærðir voru 35 mm bakvöðvi, 1,8 mm fita á baki, 4,5 fyrir lögun bakvöðva, 114 mm leggur og hann var 53 kg.
Þessi hrútur er fæddur úr sæðingum og er undan Kveik frá Hesti. Þessi hrútur er hyrndur.

3. nr. 601A hjá Aðalsteini Jónssyni og Ólafíu Sigmarsdóttur í Klausturseli á Jökuldal með 87,5 stig.
Haus 8 - Háls og herðar 9 - Bringa og útlögur 9 - Bak 9 - Malir 9 - Læri 18 - Ull 9 - Fætur 8 - Samræmi 8,5
Mældar stærðir voru 32 mm bakvöðvi, 6,2 mm fita á baki, 4 fyrir lögun bakvöðva, 123 mm leggur og hann var 62 kg.
Þessi hrútur er fæddur úr sæðingum og er undan Blossa frá Heydalsá. Þessi hrútur er kollóttur.

Sá sem raðast ofar með jafna heildarstigatölu er sá sem hefur hærri samanlögð stig fyrir bak-malir og læri eða verðmætustu bitana.

Þrjár hæst  metnu kynbótaærnar í árgangi 2005 á starfssvæði FSHF voru:

1. 05-178 Bugða hjá þeim Ásgeiri Arngrímssyni og Jóhönnu Borgfjörð í Brekkubæ í Borgarfirði eystra. Hún var með samanlagt 354.2 stig í kynbótamat - fyrir kjötgæði (113,2) (þar sem fita gildir 60% (126) og gerð (vöðvafylling) 40% (94), frjósemi (127) og mjólkurlagni (114). Tölurnar í svigunum eru BLUP kynbótaeinkunnir fyrir einstaka eiginleika. Þessi ær ber Þokugen en það er stórvirkur frjósemiserfðavísir í íslensku sauðfé sem veldur fjöldaegglosi hjá ám sem hann bera og þær eru því oftast þrí - fjór eða fimmlembdar. Þokugenið fær hún frá föður sínum Krumma 99-237 sem er mjög öflugur kynbótahrútur Ásgeirs á Brekkubæ og var sem dæmi má nefna hæstur austfirskra hrúta fyrir frjósemi þegar þessi einkunn var fyrst reiknuð með einkunnina 148. Meðalvöðvaflokkur afkvæma undan henni er 8 og meðalfita lítil eða 5,3. Hún hefur borið fimm sinnum til dagsins í dag og hefur átt 13 lömb. Hún var tvílembd gemlingurinn og gekk með báðum lömbunum. Síðan hefur hún verið þrisvar þrílembd, síðast síðastliðið vor. Hún er einnig prýðilega mjólkurlagin og er meðallífþungi afkvæma hennar 40,5 kg og meðalfallþungi 16,6 kg. Dætur hennar í hjörðinni eru orðnar tvær.

2. 05-124 hjá Þorsteini Kristjánssyni og Katrínu Guðmundsdóttur á Jökulsá í Borgarfirði eystra. Hún var með samanlagt 353.6 stig í kynbótamat - fyrir kjötgæði (116,6) (þar sem fita gildir 60% (129) og gerð (vöðvafylling) 40% (98), frjósemi (116) og mjólkurlagni (121). Hún hefur ætíð verið tvílembd. Meðalvöðvaflokkur afkvæma hennar er 9,8 og meðalfituflokkur 7,4 en meðallífþungi afkvæma hennar er 49,8 kg og meðalfallþungi 21,8 kg. Þrisvar hefur verið sett á undan henni.

3. 05-210 Ronja á Brekkubæ einnig undan Krumma 99-237.  Hún virðist þó ekki hafa erft þokugen föður síns en hefur verið tvílembd að meðtöldu gemlingsárinu utan síðasta vor. Ronja hefur skilað mjög vænum lömbum en meðallífþungi afkvæma eru 43,9 kg og meðalfallþungi 18,5 kg. Meðalvöðvaflokkur eru 8,6 en meðalfituflokkur 6,2. Hún á tvær dætur í hjörðinni á Brekkubæ. Hún var með samanlagt 348,2  stig í kynbótamat - fyrir kjötgæði (112,2) (þar sem fita gildir 60% (125) og gerð (vöðvafylling) 40% (93), frjósemi (122) og mjólkurlagni (114). Þessi ær er svartflekkótt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar