Segir sig úr stjórn Kaldvíkur og telur umbúðaverksmiðju og vinnslu of dýru verði keyptar

Aðalsteinn Ingólfsson, framkvæmdastjóri Skinneyjar-Þinganess á Hornafirði, sagði í gær af sér sem stjórnarmaður í fiskeldisfélaginu Kaldvík. Í tilkynningu segist Aðalsteinn ósáttur við það verð sem fyrirhugað sé að greiða fyrir hluti í umbúðaverksmiðju Djúpskeljar og fiskvinnslu Búlandstinds. Hann hefur óskað eftir að endurskoðendur félagsins rannsaki það.

Kaldvík er skráð á markað, bæði hérlendis og í Noregi, og vegna þess opinberaði félagið áform sín skömmu fyrir jól. Áætlað er að kaupa allt hlutafé í Mossa ehf., sem á húsnæði umbúðaverksmiðjunnar, Djúpskel og Búlandstind. Samkvæmt tilkynningu ætlar Kaldvík sér að spara talsvert fé með meiri stjórn á þessum hlutum virðiskeðjunnar.

Seljandi stórs eignarhluta fyrirtækjanna er norska félagið Heimsto sem aftur er stærsti hluthafi Austur Holding ehf., sem á 55,3% í Kaldvík. Norska Måsøval-fjölskyldan á um 70% í Austur Holding á móti Ísfélagi Vestmannaeyja. Ósval, fjölskyldufyrirtæki á Djúpavogi, á minnihluta í Djúpskel og Búlandstindi sem einnig er undir í viðskiptunum.

Telur aðra hluthafa snuðaða


Aðalsteinn segir að stjórnarformaður og meirihluti stjórnar Kaldvíkur hafi neitað að senda tilkynningu til Kauphallanna um ástæður afsagnar hans. Þess vegna gaf hann sjálfur út fréttatilkynningu í gær.

Þar lýsir hann þeirri skoðun að verðið í viðskiptunum, sem metin eru á rúma 2,2 milljarða íslenskra króna, sé of hátt. Til stendur að greiða stærstan hluta kaupverðsins á nýútgefnu hlutafé sem Aðalsteinn segir metið á 27,6 á hlut, meðan „virtir greiningaraðilar“ meti það 35-41. Með þessu hagnist Heimsto með óeðlilegum hætti á kostnað annarra hluthafa.

Ásökun um sjálfsafgreiðsluviðskipti


Hann kallar áformin, sem ætlað er að gangi eftir á fyrsta ársfjórðungi, „sjálfsafgreiðsluviðskipti“ því tveir af þremur stjórnarmönnum sem greitt hafi atkvæði með viðskiptunum séu forstóri Heimsto og fjármálastjóri. Aðalsteinn segir hafa greitt atkvæði gegn viðskiptunum og einn stjórnarmaður hafi setið hjá.

Hann tilgreinir ekki nákvæmlega hvernig atkvæðin féllu en samkvæmt síðasta ársreikningi þá eru í stjórninni formaðurinn Asle Ronning og Martin Staveli sem eru umræddir starfsmenn Heimsto. Að auki eru þar norski lögmaðurinn Hege Dahl, og Einar Sigurðsson, sem einnig situr í stjórn Ísfélagsins.

Óskar rannsókna á viðskiptunum


Aðalsteinn heldur áfram og segist telja að ýmislegt í aðdraganda viðskiptanna sé „með óeðlilegum hætti“. Ekki hafi verið „að neinu leyti“ tekið tillit til „ítrekaðra athugasemda hans. Þess vegna hefur hann skrifað ytri endurskoðendum félagsins bréf þar sem hann fer yfir málið frá sinni hlut. Hann segist hafa óskað eftir því að viðskiptin verði rannsökuð sérstaklega, meðal annars með tilliti til ákvæða hlutafélagalaga sem fjalli um viðskipti við tengdra aðila og skyldu stjórnarmanna til að gæta hagsmuna allra hluthafa félagsins.

Krossey ehf., dótturfélag Skinneyjar, er næst stærsti einstaki hluthafinn í Kaldvík með 11,9% hlut, samkvæmt ársreikningi Kaldvíkur fyrir árið 2023.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.