Segir sjávarútveginn skattlagðan umfram aðrar atvinnugreinar

Stjórnarformaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir sjávarútveg bera þyngri skattbyrði heldur en aðrar íslenskar atvinnugreinar. Auðlindagjöldin séu ekki eina dæmið um það.

„Síldarvinnslan fer hins vegar ekki varhluta af breytingum í rekstrarumhverfinu frekar en önnur fyrirtæki í útflutningi.

Breytingar á gengi íslensku krónunnar, hækkun sumra kostnaðarliða og sveiflur í afurðarverðum úti í heimi er erfitt að stjórna og hafa áhrif á. Aftur á móti eru aðrar breytingar í umhverfi okkar sem við Íslendingar höfum stjórn á,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar á aðalfundi fyrirtækisins í síðustu viku.

Þorsteinn Már tók nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi væri kostnaður við eftirlitsmenn í borð í fiskiskipum nú 84 þúsund krónur á dag miðað við 30 þúsund árið 2015.

Þá greiddi fyrirtækið 530 milljónir í veiðigjöld á síðasta ári. Þau taka hins vegar mið af afkomu nokkrum árum fyrr. „Veiðigjöldin taka ekki mið af aðstæðum í umhverfi okkar í dag heldur þegar aðstæður voru allt aðrar og betri,“ sagði Þorsteinn.

Hann benti á dæmi af Orkuveitu Reykjavíkur sem greiddi engin auðlindagjöld fyrir notkun á vatni.

Þá greiddi Síldarvinnslan 172 milljónir í kolefnisgjöld á síðasta ári. Þorsteinn sagði gjaldið greidd óháð því í hvaða lögsögu skipin veiddu og slík gjöld tíðkuðust ekki erlendis. Á sama tíma slyppu flutning- og skemmtiferðaskip við gjaldið því þau tækju ekki olíu hérlendis. Eins væru vinnuvélar sem taki litaða olíu undanþegin.

Þá hefði Síldarvinnslan þurft að borga 80 milljónir í stimpilgjöld við kaup á nýjum Beiti. Flutningaskip, flugvélar og önnur atvinnutæki bæru ekki slík gjöld.

Hagnaður Síldarvinnslunnar í fyrra nam 2,9 milljörðum króna. Félagið greiddi um 3,3 milljarða í skata á síðasta ári. Til viðbótar greiddu starfsmenn þess 1,2 milljarð í staðgreiðslu af launum.

Mynd: Síldarvinnslan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar