Segja 100 störf í fiskvinnslu geta tapast í Fjarðabyggð
Aflaheimildir í Fjarðabyggð munu skerðast um rúm þrettán þúsund þorskígildistonn á ári miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á kvótakerfinu. Eitt hundrað störf gætu tapast úr fjórðungnum. Útvegsmenn vilja að stjórnvöld setjist niður með þeim sem hagsmuna eiga að gæta í greininni og finni sameiginlega lausn.
Þetta kom fram í máli Gunnþórs Ingvasonar, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar og formanns Útvegsmannafélags Austurlands á blaðamannafundi sem útvegsmenn í Fjarðabyggð og Vestmannaeyjum héldu í dag.
Gunnþór segir aflaheimildir í Fjarðabyggð skerðast um alls 13.300 þorskígildistonn á ári miðað við 20 ára meðaltalsúthlutun þegar lögin verða að fullu komin til framkvæmda. Þetta nemur tvöföldum aflaheimildum Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði.
„Við hvetjum stjórnvöld til að setjast niður með þeim sem hagsmuna eiga að gæta og komast að skynsamlegri niðurstöðu,“ sagði Gunnþór.
Áætlað er að um 500 manns starfi beint við fiskvinnslu og veiðar í Fjarðabyggð í dag. Gunnþór segir að eitt hundrað sjómenn og starfsfólk í landvinnslu missi vinnuna ef af skerðingunni verður. Skerðingin bitni reyndar á fleirum og kjör muni rýrna og störf tapist á Austurlandi.
Í máli Gunnþórs kom fram að forsvarsmenn útgerðar á Seyðisfirði óttist að þurfa að loka frystihúsinu og útgerð á staðnum veikist verulega og hann spyr af hverju standi til „flytja störf frá fjölskyldum og fyrirvinnum til manna sem hafa selt sig út úr kerfinu?“