Sex einkaþotur á Egilsstaðaflugvelli
Sex einkaþotur voru í dag staðsettar á Egilsstaðaflugvelli. Fjórar þeirra tilheyra Ineos, fyrirtækinu sem gjarnan er kennt við breska auðkýfinginn Sir Jim Ratcliffe sem keypt hefur land við laxveiðiár í Vopnafirði.Vélar á vegum Ineos hafa farið fram og til baka frá Egilsstöðum síðustu daga. Í morgun komu þær M-ICKY frá Manchester í Englandi, M-ANTA frá Nice í Frakklandi og M-INKE frá eyjunni Brac í Króatíu.
M-OVIE kom frá Nice síðasta föstudag. Á sunnudagskvöld birtist mynd af Ratcliffe þar sem hann bjó sig undir að horfa á úrslitaleik Englands og Spánar á Evrópumótinu karla í knattspyrnu að því er virtist í veiðihúsi í Vopnafirði.
Ratcliffe er eigandi enska knattspyrnuliðsins Manchester United. Hann hefur einnig á undanförnum tíu árum eignast fjölda jarða í Vopnafirði og víðar á Norðausturlandi. Þær eru flestar í umsjón Six Rivers Iceland, félags sem hann stendur að baki og hefur það að markmiði að vernda villta laxinn í Norður-Atlantshafi.
Vélar Ineos eru allar framleiddar af Gulfstream. M-ICKY, M-ANTA og M-INKE eru nýlegar, framleiddar árið 2022.
Tvær vélanna eru ekki frá Ratcliffe. Ferðir þeirra eru ekki rekjanlegar í gagnagrunni FlightRadar. Þær eru báðar skráðar í Bandaríkjunum.
Önnur þeirra N703RK, er skráð á Emergence Southwest í Flórída. Fyrirsvarsmaður þess er Alan Russel Pike fjárfestir. Hann er meðal annars stjórnarmaður í No. 12 Interiors, bresku innanhússhönnunarfyrirtæki sem hannaði lúxushótelið að Deplum í Fljótum.
Hin bandaríska vélin glæný, framleidd af Bombardier í september í fyrra. Hún er með einkennisstafina N750PB og er skráð á Global Support LLC í Utah. Það fyrirtæki gefur sig út fyrir að vera sérhæft í upplýsingatækni, birgðastjórnun og flutningum. Stofnandi þess er Luis Toledo.
Myndir: Jónas Þór Jóhannsson og Unnar Erlingsson