Sex mánaða fangelsi fyrir akstur án ökuréttinda og fjársvik

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa nýtt viðskiptakort í eigu Golfklúbbs Seyðisfjarðar til að kaupa eldsneyti á sjálfsafgreiðslustöðvum, keyra sviptur ökuréttindum og að stela bifreið. Maðurinn á talsverðan brotaferil að baki.

Dómurinn dæmdi manninn fyrir tvö afbrot sem hann framdi á síðasta ári. Hann játaði þau skýlaust fyrir dómi.

Í fyrsta lagi var hann dæmdur fyrir að hafa í lok ágúst keypt sex sinnum eldsneyti, fyrir alls rúmar 56 þúsund krónur í heimildaleysi með viðskiptakorti í eigu Golfklúbbs Seyðisfjarðar.

Í öðru lagi hlaut maðurinn dóm fyrir að hafa í byrjun september stolið bifreið í Garðabæ og ekið henni til Reykjavíkur, án ökuréttinda.

Þá var maðurinn ákærður að hafa í mars ekið bifreið, án ökuréttinda inn í Fellabæ inn á bílastæði við bensínstöð Olís og þar fram af steyptum kanti. Þar festist bíllinn og var skilinn eftir. Fallið var frá þeim ákærulið við þingfestingu málsins.

Í dóminum kemur fram að maðurinn eigi að baki talsverðan sakaferil, meðal annars sex sinnum fyrir akstur án ökuréttinda, fjórum sinnum dæmdur fyrir auðgunarbrot, þrisvar fyrir nytjastund auk dóma fyrir líkamsárásir, brot á lögum um ávana- og fíkniefni og fleira. Síðasti dómur yfir manninum var kveðinn upp Spáni 1. september í fyrra er honum var gert að sinna 40 daga samfélagsþjónustu fyrir heimilisofbeldi. Í ljósi fyrri brota taldi dómurinn rétt að dæma manninn í sex mánaða fangelsi, óskilorðsbundið.

Þá þarf maðurinn að greiða tæpa hálfa milljón í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun verjanda síns. Fram kemur að verjandinn eigi rétt á dagpeningum því hann hafi orðið að gista yfir nótt þegar hann mætti austur þegar málið var tekið fyrir í byrjun maí, en þá var aðeins eitt flug á dag milli Egilsstaða og Reykjavíkur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.