Seyðisfjörður: Reyna að bæta samstarf minni- og meirihluta
Fulltrúar í bæjarráði Seyðisfjarðar vonast til að samstarf minni- og meirihluta standi til bóta. Oddviti meirihluta segir minnihlutann hafa reynt að gera allar aðgerðir meirihlutans ótrúverðugar. Oddviti Sjálfstæðisflokksins, sem er í minnihluta, segir eðlilegt að fólk láti skoðanir sínar í ljósi þegar það sé ósammála.Samstarfið var tekið til umræðu á fundi bæjarráðs þann 16. janúar síðastliðinn að frumkvæði Elvars Snæs Kristjánssonar, oddvita Sjálfstæðisflokksins.
Elvar segist hafa óskað eftir að málið væri tekið á dagskrá eftir bókun meirihlutans frá fyrsta bæjarstjórnarfundi ársins þar sem skorað var á minnihlutann að sýna meiri samstarfsvilja.
„Meirihlutinn hefur bent á skort á samstarfsvilja af okkar hálfu. Ég er ekki sammála því og vildi fá útskýringar á því,“ segir Elvar.
„Við erum ekki sammála ýmsum málum eða hvernig að þeim er staðið. Ef það þýðir að skortur sé á samstarfi þá höfum við ekki sama skilning á því hugtaki. Þetta urðu fínustu umræður, fólk tók jákvætt í að þetta væri rætt.“
Eiga erfitt með að sætta sig við úrslit kosninganna
Seyðisfjarðarlistinn hefur hreinan meirihluta í bæjarstjórn Seyðisfjarðar eftir kosningarnar í lok maí þar sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll. Fundir í bæjarstjórn hafa sumir orðið langir og fundargerðir innihalda töluvert af bókunum sem ganga á víxl milli minni- og meirihluta í málum eins og fjárhagsáætlun, viðgerðum á knattspyrnuvelli, ráðningu bæjarstjóra og byggingafulltrúa.
„Samstarfið hefur verið erfitt. Það hefur verið greinilegt frá kosningum að niðurstaðan var óvænt fyrir fráfarandi meirihluta og ég vil meina að þau hafi ekki sætt sig við lýðræðislega niðurstöðu kosninga.
Það hefur ekki verið nægilega mikið traust milli minni- og meirihluta og það hefur verið lagt upp með að vefengja og gera ótrúverðugt nánast hvert einasta skref síðan við tókum við. Það byrjaði strax með ráðningu bæjarstjóra,“ segir Hildur.
Jákvætt að farið sé yfir málin
Aðspurður tekur Elvar ekki undir að mórallinn í bæjarstjórn Seyðisfjarðar sé þungur. „Ég vil ekki meina það. Við erum ekki sammála um hvernig staðið er að afgreiðslu mála. Það er eðlilegt að fólk skiptist á skoðunum og betra að láta þær í ljósi frekar en þær safnist upp í undirliggjandi pirringi,“ segir hann.
Hann segir umræður á bæjarráðs fundinum hafa verið jákvæðar og samræður á næsta bæjarráðsfundi á eftir bent til þess að allt væri á leið í rétta átt. Þá hafi verið verið ákveðið að halda aukanámskeið fyrir sveitarstjórnarmenn á Seyðisfirði.
„Það var haldið námskeið fyrir alla sveitarstjórnarfulltrúa á Austurlandi síðasta haust og það voru margir hér sem misstu af því þannig við erum að koma á aukanámskeiði, meðal annars fyrir formenn nefnda. Í mínum huga er mjög jákvætt að verið sé að fara yfir þessi mál.“
Hildur kveðst einnig vona að samstarfið stefni í rétta átt. „Maður vonar það alltaf. Við höfum lagt upp með gott samstarf frá byrjun og teygt okkur býsna langt til þess, svo sem með að bjóða minnihlutanum formennsku í nefndum, Elvar Snær er varaforseti bæjarstjórnar auk þess sem minnihlutinn er með tvo fulltrúa af þremur í nefnd um sameiningu sveitarfélaga.
Ég get ekki sagt til um hvort andrúmsloftið lagist eftir þessar umræður, en ég vona að fólk nái að hefja sig upp fyrir skotgrafirnar þannig það myndist vinnufriður til að vinna að hagsmunum Seyðfirðinga. Þau verkefni eru gríðarlega mörg.“